Enska knattspyrnusabandið hefur opinberað hvað Arne Slot, stjóri Liverpool, sagði við dómarann Michael Oliver eftir jafntefli gegn Everton á dögunum sem varð til þess að honum var hent í tveggja leikja bann á Englandi.
Endir leiksins var dramatískur, Everton skoraði jöfnunarmark í lokin og mikil slagsmál brutust svo út. Slot var brjálaður eftir leik og gaf Michael Oliver honum rautt spjald í kjölfarið.
Slot stýrði svo Liverpool gegn Wolves, Aston Villa og Manchester City á meðan enska knattspyrnusambandið tók sér tíma í að ákveða örlög hans. Hann var svo dæmdur í tveggja leikja bann, missti af síðasta leik gegn Newcastle og næsta leik í ensku úrvalsdeildinni gegn Southtampton einnig. Þá fékk hollenski stjórinn 70 þúsund punda sekt.
Á meðal þess sem Slot á að hafa sagt við Oliver samkvæmt skýrslu knattspyrnusambandsins er: „Ég vona að þú sért stoltur af þessari frammistöðu.“
Slot sagði einnig: „Ef við vinnum ekki deildina mun ég fokking kenna þér um það.“ Talaði hann þá um að dómgæslan hafi verið hneyksli og að allt hafi fallið með Everton.