Ellý var gestur í áramótaþætti Fókuss, spjallþætti DV, þar sem hún spáði fyrir þekktum einstaklingum og svaraði nokkrum spurningum um árið 2025. Síðasta spá hennar í þættinum sneri að símanotkun ungmenna.
„Skólarnir verða gerðir símalausir. Það er ótrúlega fallegt að sjá hvernig allir taka höndum saman, þetta er ekki bara einn og einn skóli,“ sagði Ellý í lok desember 2024.
„Það er verið að hlúa að komandi kynslóðum og þar byrjum við á því að sleppa símum þar sem börnin okkar koma saman […] Gaman að sjá þetta. Og við erum svo einstök, þessi þjóð, að þegar við tökum höndum saman þá erum við eins og eldgos.“
Ellý sagði að það stæði kona á bak við áformin, en hún sá ekki hver. Hana grunaði kannski Höllu Tómasdóttur forseta. En það er barna- og menntamálaráðherra Ásthildur Lóa Þórsdóttir sem ætlar að ríða á vaðið og hefur verið að undirbúa frumvarp um símabann í grunnskólum landsins. Hún setur stefnuna á að skólarnir verði símalausir frá og með næsta hausti.
Sjáðu Ellý spá fyrir þessu í desember í fyrra í spilaranum hér að neðan.