Stjörnurnar virðast alltaf grennri og grennri og sífellt fleiri bætast í hóp þeirra tágrönnu. Þetta minnir óneitanlega á upphaf aldamóta þegar stærð 0 var eftirsóknarverð og Kate Moss lét þessi fleygu orð falla: „Ekkert bragðast jafn vel og að vera grönn.“
Árið 2023 var Jimmy Kimmel kynnir á Óskarnum og grínaðist með auknar vinsældir Ozempic. „Þegar ég horfi yfir salinn þá velti ég því fyrir mér… Er Ozempic málið fyrir mig?“
Nú eru tvö ár liðin og hafa nokkrar stjörnur stigið fram og viðurkennt að nota lyfið, en það virðist samt almennt ekki vera reglan og hefur það orðið til þess að aðdáendur velta vöngum yfir hvort hinn og þessi sé á þyngdarstjórnunarlyfi eða ekki.
Þegar stjörnurnar safnast saman á viðburðum eins og Óskarnum, eða SAG-verðlaunahátíðinni, verða svona trend áberandi og vakti útlit Demi Moore, Julianne Hough, Mindy Kaling, Cynthiu Erivo, Selenu Gomez, Ariönu Grande og Georginu Chapman sérstaklega athygli.
En það er vert að taka fram að engin þeirra hefur gengist við því að nota Ozempic eða sambærileg lyf og það geta aðrir þættir spilað inn í þyngdartap þeirra, eins og stress, veikindi og annað.
Aðdáendur hafa til dæmis ekki ásakað Ariönu og Cynthiu um að nota lyfið, en útlit þeirra hefur vakið miklar áhyggjur meðal aðdáenda. Sumir hafa einnig áhyggjur af því hvað breyttur líkami allra þessara stjarna merkir og hvaða áhrif þetta mun hafa á líkamsímynd kvenna og sérstaklega ungra stúlkna um allan heim. Erum við að fara að fara að sjá meira af megrunarkúrum, útlitsdýrkun og hættulegum leiðum til að léttast? Það er stóra spurningin.
Sjá einnig: Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum