Raphinha, kantmaður Barcelona, er nú orðaður við endurkomu í ensku úrvalsdeildina og ekki í fyrsta sinn.
Sögusagnir eru á kreiki um að Börsungar séu að reyna að endursemja við Brasilíumanninn, en núgildandi samningur hans rennur út eftir rúm tvö ár.
Samkvæmt fréttum ætlar félagið sér þó að lækka klásúlu Raphinha í nýjum samningi, en sem stendur þurfa félög að borga milljarð evra fyrir hann.
Miðað við þetta er Barcelona því opið fyrir að selja Raphinha ef gott tilboð berst og hjálpar félaginu í fjárhagskröggum sínum.
Raphinha er til að mynda orðaður við stórliðin Arsenal, Manchester City og Manchester United. Einnig hefur hann verið orðaður við Sádi-Arabíu áður.
Raphinha, sem er 28 ára gamall, gekk í raðir Barcelona frá Leeds sumarið 2022.
Kappinn er að eiga frábært tímabil, er með 24 mörk og 18 stoðsendingar í öllum keppnum.