Í frægri grein í Vestra síðla árs 1901 komst Hannes Hafstein svo að orði að ekkert land þyrfti þess fremur við en Ísland að öðlast öfluga og framtakssama forystu í eigin málum. Menn syltu með krásardiskinn í kjöltunni, auðlindir væru lítt nýttar, afurðir ekki arðbærar fyrir skort á fjármunum, engar væru verksmiðjurnar og fólki fækkaði óðum. Það kom skömmu síðar í hlut Hannesar sjálfs að taka að sér það hlutverk að verða fyrsti nútímaforystumaður þjóðarinnar og hrinda baráttumálum sínum í framkvæmd.
Mér var hugsað til þessa þegar ég hlýddi á kveðjuræðu Bjarna Benediktssonar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins síðastliðin föstudag. Hver verður hans sess í sögubókum framtíðarinnar? Ekki fer á milli mála að hann hefur til að bera meiri myndugleika en flestir, afburðarmælskur og hæfur forystumaður um margt. Ýmsir munu þó benda á að þrátt fyrir sextán ára setu á stóli formanns stærsta stjórnmálaflokks landsins hafi honum aðeins auðnast um skamma hríð í tvígang að verða forsætisráðherra, en þó aldrei flytja áramótaávarp. En ósanngjarnt væri að mæla arfleifð hans eingöngu í fjölda áramótaræðna. Þar til í desember síðastliðnum hafði Bjarni gegnt ráðherraembætti samfellt frá árinu 2013 og hefur líklega haft meiri að segja um þróun mála en virðist við fyrstu sýn. Jafnvel svo að hann megi telja áhrifamesta stjórnmálamann Íslands á fyrsta fjórðungi þessarar aldar.
Af Íslandssögunni að dæma voru biskuparnir helstu forystumenn þjóðarinnar um aldir. Um Gissur biskup Ísleifsson var sagt í Hungurvöku að hann hafi notið slíkrar virðingar „og svo vildi hver maður sitja og standa sem hann bauð, ungur og gamall, sæll og fátækur, konur og karlar, og var rétt að segja að hann var bæði konungur og biskup yfir landinu meðan hann lifði“. Jón Ögmundsson Hólabiskup var meira að segja tekinn í heilagra manna tölu og virðist hafa notið gríðarlegs áhrifavalds. Fyrir hans orð var vikudaganöfnunum Týsdegi, Óðinsdegi, Þórsdegi og Freysdegi úthýst og slík trúarleg vakning mun hafa orðið fyrir hans forgöngu að Norðlendingar streymdu til Hóla í pílagrímsferðir.
Þeir Gissur og Jón virðast báðir hafa notið slíks áhrifavalds að fyrir þeirra orð hafi haldist friður og sátt í þjóðfélaginu. Það er einmitt höfuðhlutverk þjóðarleiðtoga, ásamt því að koma því til leiðar sem stuðlað getur að almennri farsæld, líkt og Hannes Hafstein dró fram í greininni í Vestra í byrjun síðustu aldar. En fara mætti miklu lengra aftur í tímann. Oft er sagt og með miklum rétti að rætur vestrænna menningar liggi í þeirri grísku og vagga grískrar menningar var vitaskuld í Aþenu. Undir lok sjöundu aldar fyrir Kristburð urðu slíkar viðsjár í Aþenu að borgríkinu var bráð hætta búin, kjör hinna fátækustu fóru sífellt versnandi og ráðandi stéttir virtu lögin að vettugi. Það var þá sem Sólon kom fram, hinn mikli löggjafi Aþeninga, en honum auðnaðist að sætta andstæða þjóðfélagshópa og koma á nýrri og göfugri skipan.
Sagnaritarinn Plútarkos segir Sólon hafa framan af verið örlátan svo mjög að hann hafi misst staðfestu sína. Hann hafi þá tekið að stunda kaupskap, orðið víðförull í verslunarerindum og efnast mjög. En í stað fyrri hátta varð hann nú ráðvandur svo af bar. Höfðingjastétt borgarinnar fól hinum reynslumikla kaupmanni alræðisvald árið 594 f. Kr. Verkefni hans var að binda endi á stéttabaráttuna, setja landinu ný stjórnarlög og koma ríkinu aftur á réttan kjöl.
Fyrsta verk Sólons var að afnema allar skuldir en aðgerð sína nefndi hann seisachþeia (gr. σεισάχθεια), sem hægt væri að þýða sem „byrðalétti“. Þetta hafði meðal annars í för með sér að öllum þeim sem hnepptir höfðu verið í skuldaánauð var veitt frelsi og þeir sem seldir höfðu verið í þrældóm til annarra landa voru kallaðir heim. Þá var öll slík skuldaþrælkun bönnuð um aldur og ævi. Sömuleiðis voru allir stjórnmálafangar leystir úr haldi og þeir boðnir heim sem sendir höfðu verið í útlegð sakir stjórnmálaskoðana. Hér voru landráðamenn þó undanskildir.
Of langt mál væri að telja upp allar stjórnarbætur Sólons en ef vill var róttækast af öllu að eftirleiðis var frjálsum borgurum búið jafnræði fyrir lögum. Undir hið forna öldungaráð borgarinnar var komið stofnunum sem voru að meginstefnu til lýðræðislegar. Að auki var endurvakið hið forna allsherjarþing, ekklesia (gr. ἐκκλησία) og þar gátu allir borgarar tekið þátt í umræðum. Sérhverja ákvörðun embættismanna mátti kæra til dómstóla og sú ráðstöfun átti eftir að reynast helsta brjóstvörn lýðræðis í Aþenu.
Það segir sína sögu að þeir hinir róttækari fundu að því að Sólon hefði ekki auðnast að koma á fullum jöfnuði eigna og valda og hinir íhaldssamari átöldu hann fyrir að veita almúganum dómsvald og atkvæðisrétt. Merkilegt er af heimildum að dæma hversu stórmannlega Sólon tók gagnrýninni. Hann gekkst fúslega við því að lögin væri ófullkomin og kvaðst hafa gefið Aþeningum hin bestu lög sem sundurþykk hagsmunaöfl borgarinnar hafi getað sætt sig við.
Hér er aðeins stiklað á stóru yfir embættisverk Sólons en áhrif hans á síðari tíma valdhafa voru slík að fimm öldum síðar komst Cicero svo að orði að lög Sólons væru enn í gildi í Aþenu og andi hans svifi yfir vötnum. Afburðarforystumenn geta nefnilega orðið sameiningarafl þjóðfélaga löngu eftir andlát sitt.