Víða er nú skeggrætt, sumstaðar með óttafullum rómi, hvað nú sé framundan varðandi stríðsátök Rússa og Úkraínu, sem og samstarf Bandaríkjanna og Evrópu, eftir átakafund Zelenskys með Trump forseta og JD Vance varaforseta í Hvíta húsinu á föstudag. Fundinum var slitið og hætt við undirskrift viðskiptasamnings milli þjóðanna um vinnslu fágætra málma í Úkraínu, en það hafði verið hið eiginlega erindi Zelenskys til Washington, að undirrita þann samning. Forsetarnir náðu engan veginn saman og ágreiningur þeirra óx eftir því sem á leið fundinn uns upp úr sauð.
Háskólaprófessorarnir Baldur Þórhallsson og Jón Ólafsson ræddu stöðuna á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Baldur segir fundinn geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir Úkraínu og Evrópu:
„Samskipti Evrópuríkja við Bandaríkin eru við frostmark. Svo bætist við að leiðtogar Evrópu, þeir flykkjast allir fram á völlinn og lýsa yfir eindregnum stuðningi við Zelensky eftir fundinn Hvíta húsinu og þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig Trump hefur tekið í það fyrir framan skjáinn þegar röðuðust inn 30 stuðningsyfirlýsingar, meðal annars frá íslenska forsætisráðherranum.
Það verður mjög erfitt að vinda ofan af þessu. Alvarleiki málsins er sá að ástæðan fyrir því að leiðtogar Evrópu stíga þarna fram með þetta afgerandi hætti er sú að Úkraína verður vart varin án stuðnings Bandaríkjanna. Evrópa getur komið með fjármagnið en hún hefur ekki mannskapinn eða vopnin til þess að bakka Úkraínu upp. Það er hinn raunverulegi vandi sem menn horfast í augu við.“
Baldur bendir á að viðræðurnar hafi strandað á öryggistryggingu sem Úkraínumenn vilja fá frá Bandaríkjamönnum:
„Ef við lítum á þetta frá hlið Úkraínu og stjórnvalda þar þá treysta þau sér bara alls ekki til þess að koma á vopnahléi í átökunun nema að það komi öryggistrygging frá Bandaríkjunum, hún þarf að koma frá Bandaríkjunum því öryggistrygginguna, hún þarf að koma frá Bandaríkjunum vegna þess að menn treysta ekki á að Pútin standi við friðarsamkomulag eða vopnahlé og muni koma aftur og ráðast á landið. Á þessu stranda þá Bandaríkjamenn, eða Trump er ekki tilbúinn að veita þessa öryggistryggingu. Ég sé bara ekki í augnablikinu hvernig á að leysa það.“
Jón Ólafsson sagði:
„Spurningin er líka bara hvað gerist næst. Eins og Mark Rubio [utanríkisráðherra BNA – innsk. DV] og Kristrún Frostadóttir hafa bæði bent á þá verður eitthvað að gerast næst. Rubio talaði nú um það í viðtali á CNN eftir fundinn að það væri ekkert val um það. Þannig að spurningin er hvernig þessir persónuleikar geta stillt sig saman og auðvitað hvernig Evrópa kemur inn. Núna er verið að tala um bandalag hinna viljugu í Evrópu, það er það sem mun verða talað um á fundi Evrópuleiðtoga í dag. Zelensky nýtur til að byrja með algjörlega óskoraðs stuðnings heima fyrir, það standa allir með honum þar. Auðvitað getur maður spurt sig: Mun það endast? Því það er auðvitað langt frá því útséð um hvernig þetta fer. Svo er það auðvitað spurningin: Hvað getur Evrópa nákvæmlega gert? Það sem Evrópuleiðtogar hafa þurft að horfast í augu við og venja sig við er heimur án bandarísks bandamanns. Það er auðvitað stóra málið í þessu líka. Spurningin um hvað sé hægt og hvað sé ekki hægt, það er mjög erfitt að negla það niður hér og nú, í herfræðilegum skilningi. Eru Úkraínumenn að tapa, eru þeir ekki að tapa? Það fyrir Zelensky að undirrita þennan samning á föstudaginn var dálítið svona erfitt mál. Því þá hefði Trump fengið nákvæmlega það sem hann vildi, hann hefði getað sagt, við erum búnir að ná samningum, nú verður farið að semja við Rússa. Úkraínumenn geta ekki á nokkurn hátt treyst því sem gerist á milli Bandaríkjanna og Rússa þegar Trump gerir ekki annað en að endurtaka orðrétt það sem Pútin og hans menn segja um stríðið. Staðan er svo flókin.“
Jón bendir á að Bandaríkjamenn hafi hamrað á því að eini maðurinn sem geti leyst Úkraínudeiluna sé Trump. En staðreyndin sé sú að hann geti það ekki:
„En Trump getur ekki leyst þetta. Það er það sem blasir við. Það er kannski stóra vandamálið eftir fundinn um daginn. Núna sjáum við að Trump er annars vegar hégómlegur narsissisti, eins og við vitum, og á hinn bóginn er hann samningamaðurinn mikli. Þannig að það á eftir að koma í ljós á næsu dögum, verður þess krafist að Zelensky segi af sér? Mun Trump halda því til streitu sem hann hefur þegar krafist, að Zelensky biðjist opinberlega afsökunar? Eigum við eftir að sjá það vera að stjórna atburðarásinni? Eða eigum við eftir að sjá, bíðum nú við, Bandaríkjamenn vilja gera þennan samning? Hann er akkúrat sá samningur sem þeir þurfa að gera til að geta sett viðræður í gang við Rússa. Þeirra markmið er að normalísera tengsl við Rússa. Það er aðalatriðið.“
Nánar á Sprengisandi