fbpx
Mánudagur 03.mars 2025
Fréttir

Hvetur til stillingar eftir eldfima fundinn í Hvíta húsinu – „Mér finnst eins og það sé einhver panik í gangi á Íslandi“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 2. mars 2025 12:00

Hilmar Þór Hilmarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um fátt hefur verið meira rætt undanfarna daga en spennuþrunginn fund Zelenskys Úkraínuforseta með þeim Trump forseta og JD Vance varaforseta í Hvíta húsinu, þar sem segja má að bandarísku leiðtogarnir hafi húðskammað Úkraínuforseta og sakað hann um vanþakklæti. Fundurinn vakti ugg í brjósti margra um samstöðu vestrænna þjóða í framtíðinni.

Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, segir í viðtali við DV að yfirvöld í Úkraínu hefðu aldrei átt að samþykkja það form sem var á fundinum, þar sem Zelensky mætti þeim tveimur saman, forsetanum og varaforsetanum, fyrir framan fjölmiðlamenn:

„Mér fannst mjög sérstakt að hafa fundinn þannig að bæði forseti Bandaríkjanna og varaforseti JD Vance væru á staðnum fyrir Bandaríkin og Zelensky einn til svara fyrir Úkraínu. Vance hefur lengi verið mjög andvígur frekari hernaðaraðstoð við Úkraínu og afstaða hans kom ekki á óvart. Zelensky snérist til varnar en var einn og hefur takmarkað vald á ensku og staða hans erfið. Það þarf ekki að spyrja að leikslokum. Þetta fundarformat með viðveru fjölmiðla hefðu yfirvöld í Úkraínu ekki átt að samþykkja.

Mér finnast alþjóðasamskipti Úkraínu oft einkennast af reynsluleysi, þeir virðast hvergi fá handleiðslu frá reynslumeiri ríkjum. Það á að vera búið að semja vandlega orðaða talpunkta fyrir svona mikilvægan fund þar sem allt er í meginatriðum fyrirfram ákveðið. Annars getur allt farið í bál og brand eins og það gerði með skelfilegum afleiðingum á versta tíma.“

Gætu dregið sig út úr NATO

Hilmar telur að tími mikilla fjárútláta frá Bandaríkjamönnum vegna Úkraínustríðsins sé nú lokið:

„Donald Trump talar um að Úkraína hafi ekki góð spil og vill semja frið. Evrópa er á öðru máli og virðist vilja halda stríðinu áfram í von um að Úkraína styrki stöðu sína, sem verður að teljast mjög hæpið sérstaklega ef Bandaríkin draga sig svo út úr þessu eins og Trump hótar að gera. Tími mikilla fjárútláta frá Bandaríkjunum vegna stríðsins er liðinn og nú heimtar Trump endurgreiðslu í formi auðlinda. Vaxandi deilur milli Bandaríkjanna og Evrópu geta leitt til þess að Bandaríkin minnki framlög sín til NATO eða jafnvel dragi sig úr bandalaginu.

NATO skiptir ekki miklu máli fyrir öryggi Bandaríkjanna. Bandaríkjunum stafar engin ógn af nágrönnum sínum, Kanada í norðri og Mexíkó í suðri. Aðalkeppinautur Bandaríkjanna, Kína, er í mikilli fjarlægð. Það væri í samræmi við „American first policy“ Trumps að draga Bandaríkin úr NATO. Trump er orðinn þreyttur á leiðtogum Evrópu og nýjustu atburðir bæta ekki úr skák.

Sagt hefur verið sagt að NATO hafi verið stofnað til að halda Rússlandi úr Evrópu, Bandaríkjunum í Evrópu og Þýskalandi niðri. Ef Bandaríkin hverfa af vettvangi er hætta á að stóru Evrópuríkin fari að keppa um völd sín á milli og við höfum séð afleiðingarnar af þess konar samkeppni áður.“

Margir Bandaríkjamenn hugsa á svipuðum nótum og Trump

Hilmar bendir á að áframhaldandi hernaðarlegur stuðningur Íslands við Úkraínu gæti skaðað samskipti við Bandaríkin:

„Hvort sem okkur líkar betur eða verr var Donald Trump kjörinn Bandaríkjaforseti á lýðræðislegan hátt. Margir Bandaríkjamenn hugsa svipað og hann og eru orðnir þreyttir á endalausum styrjöldum, t.d. stríðinu í Afganistan sem stóð í 20 ár, frá 2001 til 2021, og var gríðarlega kostnaðarsamt fyrir Bandaríkin og endaði illa. Svo hófst Úkraínustríðið í febrúar 2022 og er að byrja sitt fjórða ár. Trump will beina athyglinni að innanlandsmálum í Bandaríkjunum sem mörg eru umdeild og svo Asíu vegna uppgangs Kína.

Ef lönd eins og Ísland halda áfram hernaðarstuðningi við Úkraínu t.d. með stuðningi við framleiðslu á drónum og vopnakaupum á meðan Bandaríkin vilja semja um frið gæti skapast spenna milli Bandaríkjanna og Íslands og þá vakna spurningar um stöðu varnarsamningsins frá 1951 sem við treystum á. Ísland ætti að forðast illdeilur við Trump nú ef við viljum halda í þennan varnarsamning.

Evrópa virðist ekki hafa tillögur um hvernig stríðinu á að ljúka. Pútin hefur lagt fram tillögur sem er erfitt að ganga að. Ef Bandaríkin draga sig svo út úr málinu þá er hætta á að Úkraína tapi enn meira landi en þegar er orðið.“

Að velja skásta kostinn og gæta stillingar

„Alþjóðasamskipti snúast um að velja skásta kostinn af slæmum kostum og hér eru aðeins slæmir kostir í boði. Ef stjórnvöld í Úkraínu vilja frekar halda stríðinu áfram þá er það þeirra ákvörðun og þeirra áhætta og spurning hvaða stuðning Evrópa getur veitt og hve lengi,“ segir Hilmar ennfremur.

„„Hinn frjálsa heimur þarf nýjan leiðtoga,“ segir Kaja Kallas, utanríkis- og öryggismálastóri ESB. Ætlar hinn frjálsi heimur að setja traust sitt á hana eða Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB? Eða eigum við kannski að treysta á Emmanuel Macron, Olaf Scholz eða Keir Starmer?“

Hilmar hvetur íslensk stjórnvöld til að sýna stillingu og stórefla Landhelgisgæsluna:

„Ég er á ferð í Asíu og mér finnst eins og það sé einhver panik í gangi á Íslandi þessa dagana. Við höfum verið í NATO í 76 ár og með varnarsamninginn við Bandaríkin í 74 ár. Trump gerði ekkert til að eyðileggja þetta samstarf á fyrra kjörtímabili sínu og ekkert víst að hann geri eitthvað róttækt sem okkur snertir á þessu kjörtímabili þá 1400 daga sem hann á eftir í embætti. Þegar Mike Pence, þá varaforseti Bandaríkjanna, kom hingað á fyrra kjörtímabili Trumps höfðu Bandaríkin áhuga á að styrkja varnarsamstarfið við Ísland, en ekki veikja það.

Við eigum að mínum dómi að forðast óþarfa illdeilur við öll stórveldi. Við höfum fordæmt ólöglega innrás Rússlands í Úkraínu. Vopnakaup íslenskra stjórnvalda til að nota gegn rússneska hernum voru óþörf, við gátum hjálpað Úkraínu á annan hátt. Síðan var það illa ígrunduð lokun sendiráðsins í Moskvu, sem ekkert annað ESB eða NATO ríki hefur gripið til.

Við eigum nú að mínu viti að auka okkar eigið öryggi með því að stórefla Landhelgisgæsluna vegna þess að við liggjum að sjó án landamæra við önnur ríki, og efla sérsveit ríkislögreglustjóra. Í viðræðum við Bandaríkin og NATO getum við svo bent á þetta framlag sem líka styrkir stöðu okkar bandamanna á norðurslóðum.

Ég tek það fram að ég er enginn aðdáandi Trumps frekar en Bidens, en förum varlega nú og sýnum stillingu og yfirvegun. Vopnlaus þjóð á ekki að tala á herskáan hátt og leggjast gegn vopnahléi og friðarsamningum.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Hjálmar Örn fékk hjartaáfall – „Magnað heilbrigðiskerfi og starfsfólk“

Hjálmar Örn fékk hjartaáfall – „Magnað heilbrigðiskerfi og starfsfólk“
Fréttir
Í gær

Jens Garðar nýr varaformaður Sjálfstæðisflokksins

Jens Garðar nýr varaformaður Sjálfstæðisflokksins
Fréttir
Í gær

Gagnrýnir formannsframbjóðendur Sjálfstæðisflokksins – „Er í lagi að bjóða upp á svona þvaður á alvörutímum í sögu Evrópu?“

Gagnrýnir formannsframbjóðendur Sjálfstæðisflokksins – „Er í lagi að bjóða upp á svona þvaður á alvörutímum í sögu Evrópu?“
Fréttir
Í gær

Brostnar vonir í Almannadal – Engin svör fást við því hvað varð um tugi milljóna króna en fullyrt að staðið hafi verið við allt

Brostnar vonir í Almannadal – Engin svör fást við því hvað varð um tugi milljóna króna en fullyrt að staðið hafi verið við allt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vegfarendur beðnir um að sýna aðgát við sérstakar veðuraðstæður í Reykjavík

Vegfarendur beðnir um að sýna aðgát við sérstakar veðuraðstæður í Reykjavík
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nanna segir notkun gervigreindarmynda í þáttaröð RÚV viðhalda ranghugmyndum – „Löngu hætt að hafa nokkur afskipti af þáttunum þegar þetta bull kom til“

Nanna segir notkun gervigreindarmynda í þáttaröð RÚV viðhalda ranghugmyndum – „Löngu hætt að hafa nokkur afskipti af þáttunum þegar þetta bull kom til“