Það eru 100 prósent líkur á því að Mohamed Salah fái Ballon d’Or verðlaunin á þessu ári ef Liverpool tekst að vinna ensku úrvalsdeildina.
Þetta segir Jamie O’Hara, fyrrum leikmaður Tottenham, en Salah hefur verið stórkostlegur fyrir topplið Englands í vetur.
Þrátt fyrir að hafa staðið sig virkilega vel í mörg ár hefur Salah aldrei unnið Ballon d’Or sem eru afhent besta leikmanni hvers árs fyrir sig.
Afríkumótið gæti einnig haft áhrif á valið en Salah er leikmaður Egyptalands og þeirra stærsta stjarna.
,,Ég held að það sé klárt að Mohamed Salah muni vinna Ballon d’Or ef Liverpool vinnur deildina,“ sagði O’Hara.
,,Hver ætlar í keppni við hann? Fólk gæti nefnt menn eins og Kylian Mbappe en hann hefur fengið sína gagnrýni fyrir Real Madrid og Frakkland.“