Jóhann Páll Ástvaldsson, íþróttafréttamaður á RÚV, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti Íþróttavikunnar, sem kemur út alla föstudaga á 433.is.
Það var til að mynda rætt um undirbúningstímabilið hér heima. Þar hefur KA til að mynda ekki litið allt of vel út undanfarið. Liðið tapaði 2-5 gegn Fram á dögunum og var einnig skellt 0-5 af Breiðabliki nýlega.
„Það er eiginlega sjokkerandi hversu lélegt þetta KA-lið er. Það vantar ekkert marga leikmenn inn í þetta,“ sagði Hrafnkell, sem hefur fylgst vel með norðanmönnum.
„Þeir verða að fá kantmann á móti Hallgrími Mar, sem getur tekið boltann, sólað 2-3 og neglt honum fyrir á Hallgrím eða Viðar. Adam Ægir hefði verið fullkominn fyrir þá, enda var það alveg pæling víst,“ sagði Hrafnkell, en Adam hélt kyrru fyrir á Ítalíu eftir að hafa verið orðaður við heimkomu.
Hrafnkell sagðist þá hafa verulegar áhyggjur af KA og telur að liðið geti jafnvel verið í fallbaráttu í sumar.
„Ég hef það, sérstaklega af því við erum að sjá Vestra styrkja sig. Miðað við hvað þeir geta verið öflugir, sérstaklega á heimavelli, getur KA alveg sogast þarna niður eins og staðan er.“
Jóhann sér KA þó ekki falla og benti á að Hallgrímur Mar Steingrímsson væri enn í liðinu.
„Manni finnst eins og Haxgrímur eldist ekki og ef hann skilar sínum 15 mörkum + stoðsendingum dugar það.“
Umræðan í heild er í spilaranum.