Landsliðsmaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson, sem er á mála hjá Dusseldorf í þýsku B-deildinni, var í viðtali í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is. Landsliðið var að sjálfsögðu til umræðu eins og fleira.
Arnar Gunnlaugsson tók við sem landsliðsþjálfari fyrr í vetur og mun hann stýra sínum fyrstu leikjum síðar í þessum mánuði, gegn Kósóvó í Þjóðadeildarumspilinu. Ísak hlakkar mikið til að vinna með Arnari.
„Við ungu strákarnir höfum alltaf fylgst vel með Arnari og hlakkað til að vinna einn daginn með honum. Hann er Skagamaður og ég hef litið upp til hans, hefur fundist hann ótrúlega flottur sem þjálfari Víkings. Hann er fótboltahugsuður og mjög nettur gaur. Hann er með áru og ég hlakka mjög til að vinna með honum. Ég held hann verði mjög flottur landsliðsþjálfari,“ sagði Ísak í Íþróttavikunni.
Ísak er að eiga ansi gott tímabil á miðjunni hjá Dusseldorf og væri hægt að færa rök fyrir því að hann eigi fullt erindi í að spila stóra rullu í komandi landsleikjum.
„Hann hringdi í mig um daginn og útskýrði stöðuna, hvernig hann sér mig fyrir sér í landsliðinu. Hann er búinn að fylgjast vel með mér í Dusseldorf og hefur spilað í þessari deild líka, veit hvernig þetta er svo það var gaman að heyra hans vinkil á því.
Ég var minna í liðinu hjá Age (Hareide) en fannst ég alltaf gera mitt þegar ég kom inn. Ég geri mér grein fyrir því að Jói Berg er að spila sinn 100. landsleik í næsta leik og Arnór Ingvi búinn að standa sig mjög vel. En ég er að banka á hurðina og verð klár sama hvað. Ég ætla að vera eins klár og mögulegt er þegar tækifærið kemur. Ég get ekki ætlast til þess að vera í byrjunarliðinu en ég get haldið mér í sem besta forminu og er að spila vel hérna úti.“
Ísak segir fulla ástæðu til að vera bjartsýnn fyrir framtíð íslenska landsliðsins.
„Það eru ótrúlega margir að gera ótrúlega flotta hluti núna. Vinur minn Hákon (Arnar í Lille) er að standa sig ótrúlega vel og mikið af ungum leikmönnum að gera ótrúlega góða hluti. Þetta verður mjög spennandi og nýtt upphaf. Ef við höldum áfram að þróast og standa okkur svona vel er engin ástæða til að ætla annað en að við munum ná mjög langt sem lið. Undankeppnin byrjar í haust og við ætlum að vera 110 prósent klárir og vera með lið sem getur barist um að fara á HM.“
Nánar er rætt við Ísak í spilaranum.