fbpx
Föstudagur 28.febrúar 2025
Fréttir

Ólafur ósáttur og sakar Viðskiptablaðið um lygar – „Sit ekki lengur þegjandi undir upplognum merkimiðum falsfréttamiðla“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 28. febrúar 2025 10:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, sakar Viðskiptablaðið um að birta lygar um sig. Í fjölmiðlarýni blaðsins nýlega segir:

„Það ætti annars ekki að koma neinum á óvart að samhljómur sé milli skoðana Ólafs og Össurar en hermt er að þeir séu ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni fyrrverandi forseta í nánasta ráðgjafarliði Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra og ganga dags daglega undir nafninu öldungaráðið meðal landgönguliða Samfylkingarinnar.“

Ólafur segir í Facebook-pistli að þetta sé alrangt. Hann hafi aldrei gefið Kristrúnu ráð. Jafnframt sé það hrein lygi að hann, Össur og Ólafur Ragnar séu í ráðgjafaráði Kristrúnar:

„Á að leiðrétta lygar og falsfréttir um sjálfan sig þegar þær birtast í „alvöru“ fjölmiðlum? Ég hef sjaldan gert það, en nú eru nýir tímar. Minnugur þess sem áróðursmeistarinn dr. Göbbels sagði um lygina er nauðsyn að sannleikurinn komi fram, a.m.k fyrir þá sem trúa því enn að sannleikurinn sé til- og að vísindin séu skárri þekking en einber hugarburður.

Viðskiptablaðið segir nýlega að ég sé „í nánasta ráðgjafaráði Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra“. Sannleikurinn er sá að ég hef aldrei gefið henni ráð, enda hefur hún aldrei falast eftir mínum ráðum. Við höfum reyndar skipst á fáeinum kurteisisorðum – í eitt eða tvö skipti. Stjórnaði svo einu sinni fundi í Hörpu þar sem Kristrún, Þórdís Kolbrún, Lilja Alfreðsdóttir og Katrín Jakobsdóttir voru í pallborði.

Viðskiptablaðið segir líka að við Össur Skarphéðinsson og Ólafur Ragnar Grímsson séum í þessu nánasta ráðgjafaráði Kristrúnar. Það er hrein lygi. Við þremenningar höfum aldrei hist til að ræða málefni Kristrúnar, hvorki í skrokknum né rafrænt. Auðvitað hef ég oft talað við Össur og Ólaf Ragnar um pólitík undanfarna áratugi, en yfirleitt alltaf sitt í hvoru lagi.

Viðskiptablaðið segir að „landgönguliðar“ Samfylkingar kalli okkur þremenninga „öldungaráðið“. Ekki veit ég hvort það er rétt, en þá hafa einhverjir logið að þessu grasrótarfólki – sem oftast er reyndar kallað „fótgönguliðar“.“

Sakar Morgunblaðið einnig um ósannindi

Ólafur segir að Morgunblaðið hafi einnig fullyrt ranglega undanfarin ár að hann sé Samfylkingarmaður. Segir hann að það sé lygi. Segist Ólafur ekki lengur sitja undir upplognum merkimiðum falsréttamiðla og virðist reiður:

„Undanfarin ár hefur Morgunblaðið iðulega fullyrt að ég sé Samfylkingarmaður. Það er lygi. Ég er ekki flokksbundinn í Samfylkingunni og hef aldrei verið. Hef reyndar ekki verið flokksbundinn í neinum flokki í áratugi. Og ekki látið í ljós stuðning við neinn flokk.

Ég hef rannsakað stjórnmál í áratugi – og veitt ókeypis alþýðufræðslu i fjölmiðlum. Reynt að vera óhlutdrægur. Kvarta ekki undan málefnalegri gagnrýni á mín sjónarmið. En sit ekki lengur þegjandi undir upplognum merkimiðum falsfréttamiðla, sem augljóslega reyna að draga úr trúverðugleika mínum.

Á þessum áratugum hef ég kynnst fjölmörgum forystumönnum íslenskra stjórnmálum í öllum flokkum. Það hefur verið ánægjulegt. Oft átt gagnlegar, fróðlegar og skemmtilegar viðræður við þessa foringja um stjórnmál. Fæst af því getur þó talist vera „ráðgjöf“ – nema þá helst ráðleggingar til margra þeirra um réttlátt kosningakerfi.

Ég hef verið beðinn um að tala um íslensk stjórnmál og stjórnmálafræði á fjölmörgum fundum í áratugi. Alltaf tekið því vel. Talað á hjá flestum flokkum, m.a Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Alþýðuflokki, Samfylkingu, Vinstri grænum og Viðreisn. Oft talað undanfarið við Sósíalista á Samstöðinni. Flutti síðast erindi á flokksráðsfundi Vinstri grænna um síðustu helgi. – Auk þess talað oft á fundum í Rótarý og álíka klúbbum. Sérstaklega var gaman að tala um unga fólkið og stjórnmálin á fundi þar sem skátafélagið Hraunbúar leiddi saman unga kjósendur og alla frambjóðendur í Kraganum fyrir síðustu alþingiskosningar í Hraunbyrgi í Hafnarfirði.

Ég mun áfram sinna þessu hlutverki í pensjóninni. Halda áfram að reyna að greina stjórnmálin á hlutlægan hátt. Segja frá vísindalegum niðurstöðum – og spekúlera. Tala á fundum þegar ég er beðinn. Tala við stjórnmálaforingja allra flokka í einkasamtölum þegar þeir vilja. Jafnvel gefa þeim ráð – ef einhverjir þeirra óska þess.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Skáksnillingurinn og Íslandsvinurinn Boris Spassky látinn

Skáksnillingurinn og Íslandsvinurinn Boris Spassky látinn
Fréttir
Í gær

Grímur opnar sig um persónulega reynslu sem barn í kerfinu – „Ég sagði aldrei neitt enda var enginn að hlusta“ 

Grímur opnar sig um persónulega reynslu sem barn í kerfinu – „Ég sagði aldrei neitt enda var enginn að hlusta“ 
Fréttir
Í gær

World Class hjónin skála í nýja húsinu – Nágrannar óánægðir með snigilshraða á framkvæmdum

World Class hjónin skála í nýja húsinu – Nágrannar óánægðir með snigilshraða á framkvæmdum
Fréttir
Í gær

Kristján lést í hörmulegu slysi á Þingvallavegi – Safnað fyrir eiginkonu hans og syni

Kristján lést í hörmulegu slysi á Þingvallavegi – Safnað fyrir eiginkonu hans og syni