fbpx
Föstudagur 28.febrúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins og sægreifar vilja Áslaugu – breiðfylkingin velur Guðrúnu

Eyjan
Föstudaginn 28. febrúar 2025 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fólkið velur forsetann er slagorð sem þekkt er úr nokkrum forsetakosningum á Íslandi. Fyrst er munað eftir því árið 1968 þegar Kristján Eldjárn bar sigurorð af Gunnari Thoroddsen með nokkrum yfirburðum. Þá var Gunnar talinn njóta stuðnings helsta valdafólks landsins, ráðherra, þingmanna og auðugustu atvinnurekenda landsins úr Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Alþýðuflokki. Breiðfylking kjósenda var ekki sömu skoðunar og Kristján vann stórsigur mörgum að óvörum. Sagan endurtók sig síðastliðið sumar þegar Halla Tómasdóttir var kjörin forseti þótt Katrín Jakobsdóttir hafi notið stuðnings þáverandi ríkisstjórnar, forystumanna stjórnarflokkanna, Morgunblaðsins og flestra ríkustu fyrirtækja og einstaklinga landsins, einkum þó í sjávarútvegi. Katrín var með langdýrustu og flottustu kosningabaráttuna sem stuld var og greidd af þessum öflum. En allt kom fyrir ekki og Halla Tómasdóttir var kjörin forseti Íslands nokkuð örugglega.

Orðið á götunni er að nú sé uppi svipuð staða í aðdraganda formannskjörs í Sjálfstæðisflokknum. Fráfarandi forysta flokksins, sem ber meginábyrgð á þeirri veiku stöðu sem flokkurinn er nú kominn í, hefur valið sér Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur sem frambjóðanda sinn. Hún kom inn á Alþingi beint úr námi í háskóla og hefur enga reynslu úr atvinnulífi landsmanna. Hún hefur aldrei í fullu starfi fengið laun frá öðrum en Ríkissjóði Íslands. Margir af fyrrverandi og núverandi þingmönnum flokksins styðja hana og telja að hún sé rétti aðilinn til að taka við sem leiðtogi flokkseigenda í Sjálfstæðisflokknum þar sem sægreifar, Morgunblaðið og ríkasta fólk landsins ráða því sem það vill ráða. Meðal þeirra núverandi og fyrrverandi þingmanna flokksins sem hafa gengið fram fyrir skjöldu í stuðningi við Áslaugu eru Sólveig Pétursdóttir, Óli Björn Kárason, Hildur Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson og Illugi Gunnarsson.

Vitað er að sægreifar tengdir Ísfélagi Vestmannaeyja leggja ofuráherslu á að styðja Áslaugu Örnu enda er faðir hennar, Sigurbjörn Magnússon lögmaður, samstarfsmaður þeirra og meðal annars stjórnarformaður útgáfufélags Morgunblaðsins á þeirra vegum. Sama gildir um eigendur Samherja á Akureyri og fleiri sem tengdir eru sjávarútvegi og hafa notið góðs af gjafakvótakerfinu sem þeir óttast nú að verði hróflað við.

Forysta Sjálfstæðisflokksins, bæði hin opinbera og einnig hin valdamikla að tjaldabaki, á nú erfiða daga. Hún er skjálfandi. Flokkurinn er valdalaus í landstjórninni eftir að hafa verið hafnað í þingkosningum þann 30. nóvember sl. og er þar af leiðandi utan ríkisstjórnar næstu fjögur árin. Varðstaðan um sérhagsmuni sægreifa er óvirk í bili. Þeir þurfa einnig að horfa til þess að Sjálfstæðisflokknum gengur ekkert að komast til valda í höfuðborginni. Þótt glufa hafi opnast fyrr í þessum mánuði þegar leiðtogi Framsóknar, fyrrum sjálfstæðismaður úr Kópavogi, sleit samstarfi í borginni, plottaði yfir sig og ætlaði að koma Sjálfstæðisflokknum til valda með snöru átaki – þá brást það. Gleðin stóð einungis í einn sólarhring og svo var það búið. Aðrir flokkar forðast samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Þannig er nú orðspor hans orðið.

Þetta er það andrúmsloft sem fulltrúar á landsfundi flokksins um helgina verða að horfast í augu við. Vill flokkurinn halda áfram að vera einangraður og hliðsettur í íslenskum stjórnmálum eða vill hann freista þess að komast á ný að við stjórn lands og borgar með öðrum flokkum. Spyrja má hverjir kynnu að vilja vinna með Sjálfstæðisflokknum í framtíðinni því að nú er ekki eftirspurn eftir slíku samstarfi, eins og dæmin sýna með ótvíræðum hætti.

Orðið á götunni er að Bjarni Benediktsson hafi vikið úr formannsstóli núna til að opna flokkinn og frelsa hann úr höndum flokkseigendanna. Gera hann þannig líklegri til að aðrir flokkar gætu hugsað sér samstarf við hann sem ekki er nú í boði. Verði Áslaug Arna fyrir valinu á landsfundinum munu flokksmenn einungis fá meira af því sama og þar með áframhaldandi fylgisminnkun og áhugaleysi annarra flokka á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Það er ekki áhugaverð framtíðarsýn fyrir rótgróinn valdaflokk eins og Sjálfstæðisflokkurinn er.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var og hét einkenndist hann af breidd en ekki hagsmunagæslu fyrir hina fáu og ríku eins og verið hefur. Þá átti flokkurinn stuðning virtra leiðtoga í verkalýðshreyfingunni, flestir helstu íþróttaleiðtogar landsins tengdust flokknum sem kjörnir fulltrúar og mikilvægir menn úr atvinnulífinu voru í forystu flokksins. Ekki síst Ólafur Thors, Geir Hallgrímsson, Albert Guðmundsson og Einar Oddur Kristjánsson. Eftir að þessir mikilvægu menn hurfu af velli hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki átt neinn forystumann út atvinnulífinu – fyrr en Guðrún Hafsteinsdóttir kom inn í forystu flokksins eins og stormsveipur, tók sæti á Alþingi og lét síðan verkin tala sem dómsmálaráðherra eftir tilfinnanlegt aðgerðarleysi á þeim vettvangi.

Orðið á götunni er að velji fólkið að opna flokkinn og koma honum aftur á beinu brautina verði að rjúfa tengslin við flokkseigendafélagið og sægreifana á bak við tjöldin. Það verði einungis gert með því að velja Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem formann Sjálfstæðisflokksins. Það yrðu vond tíðindi fyrir aðra íslenska stjórnmálaflokka sem vilja að sjálfsögðu að flokkurinn hjakki í sama fari fylgisminnkunar og tryggi meira af því sama einangraður og úti í horni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitískasta þversögnin á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitískasta þversögnin á Íslandi
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lætur fyrrum valdaflokka „í flókinni tilvistarkreppu“ heyra það – „Sú umræða snerist auðvitað ekkert um tappa“

Lætur fyrrum valdaflokka „í flókinni tilvistarkreppu“ heyra það – „Sú umræða snerist auðvitað ekkert um tappa“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Fundaóður flokkur undirbýr landsfund – áhlaup Áslaugar í Reykjavík misheppnast

Orðið á götunni: Fundaóður flokkur undirbýr landsfund – áhlaup Áslaugar í Reykjavík misheppnast
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Enn og aftur um bókun 35 og forgang EES-reglna

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Enn og aftur um bókun 35 og forgang EES-reglna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Áslaug Arna: Sjálfstæðisflokkurinn gamaldags og þungur – ég er rétta manneskjan til að takast á við krísuna

Áslaug Arna: Sjálfstæðisflokkurinn gamaldags og þungur – ég er rétta manneskjan til að takast á við krísuna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Vegakerfið hrundi á vakt Framsóknar og dýralæknanna

Orðið á götunni: Vegakerfið hrundi á vakt Framsóknar og dýralæknanna