Sala á Tesla hefur hrapað í Evrópu að undanförnu. Talið er að hegðun eigandans Elon Musk skiptir þar miklu máli. Kínverskur bílaframleiðandi græðir á þessum óvinsældum.
Sala á Tesla bílum hefur hrunið um 45 prósent á milli ára. Þetta sína tölur frá því í janúar. Þegar aðeins er litið til Evrópusambandsins hefur salan minnkað um 50,3 prósent og sums staðar er hrunið mun meira. Í Frakklandi hefur salan minnkað um 59,5 prósent og í Þýskalandi um heil 63 prósent.
Ástæðan er að miklu leyti talin vera hegðun og afskiptasemi eigandans Elon Musk. En hann hefur meðal annars blandað sér í kosningabaráttuna með stuðningi við öfgaflokkinn AFD sem og að heilsa að nasistasið, sem er einkar viðkvæmt mál í Þýskalandi.
En þetta hrun hjá Tesla þýðir ekki að rafbílasala fari minnkandi í Evrópu. Þvert á móti þá hefur hún aukist um 37 prósent á milli ára. Eru rafbílar sífellt að verða stærri hluti af heildarsölu nýrra bíla.
Sá bílaframleiðandi sem hefur grætt hvað mest á hruni Tesla er hinn kínverski SAIC. Á meðan sala Tesla hrundi úr 18.161 í 9.945 bíla á milli ára þá seldi SAIC 22.994 eintök.