Meðal frétta dagsins er lítil frétt í Morgunblaðinu um uppboð sem fara mun fram í tengslum við landsfund Sjálfstæðisflokksins. Fyrir uppboðinu stendur Samband ungra Sjálfstæðismanna. Helst er talið til tíðinda að þar verður boðinn upp forláta samóvar, sem aðallega ku nýtast við tedrykkju. Tilgangur uppboðsins er að afla fjár til rekstrar félags hinna hægri sinnuðu ungliða.
En samóvarinn sá á sér merkilega sögu. En það bar til um það leyti sem leiðtogafundurinn í Höfða var haldinn, haustið 1986, að Mikhaíl Gorbatsjov, leiðtogi Sovétríkjanna, færði borgarstjóranum í Reykjavík, Davíð Oddssyni, hann að gjöf sem þakklætisvott fyrir að hýsa fundinn.
Svarthöfða þykir augljóst að Davíð Oddsson hefur litið á gripinn sem persónulega gjöf til sín, þótt hann hafi á þeim tíma hvorki átt borgina né Höfða.
Leiðtogafundurinn er í fréttinni sagður hafa markað djúp spor í heimssöguna. Framan af voru ekki allir á einu máli um það atriði, en heldur hefur þeim fjölgað sem líta á að á honum hafi tengst þráður milli austurs og vesturs, sem síðar hafi orðið grundvöllur þýðu í samskiptum stórveldanna.
Svarthöfði er ekki viss hvort þeir lesi rétt í þá stöðu, en hitt finnst honum miklu merkilegra.
Nefnilega það að leiðtogi kommúnísks heimsveldis á sinni tíð, Sovétríkjanna, skuli leggja þótt óbeint sé, baráttu hægrisins hér á landi lið. Það er sannarlega óvænt og ekki víst að hann hefði fallist á þessa ráðstöfun – hefði honum enst aldur. En hver veit? Ekki veitir stjórnmálasamtökunum þeim af liðsaukanum.
Svarthöfði styrkist enn í þeirri trú sinni að ekki sé öll vitleysan eins.