Kjartan Kári Halldórsson hafnaði því að ganga í raðir Vals og mun hann vera áfram hjá FH. Frá þessu sagði hann í samtali við Fótbolta.net.
Hinn 21 árs gamli Kjartan Kári er lykilmaður í liði FH og lék alla 27 leiki liðsins í Bestu deildinni í fyrra. Skoraði hann þar átta mörk og lagði upp sex.
Í vetur hefur hann verið orðaður við Val og Víking og samþykkti FH tilboð fyrrnefnda félagsins í hann.
„Það er auðvitað mjög gaman að fá áhuga frá öðrum liðum og það frá Val og Víking. Maður peppast að sjálfsögðu upp við það. En þetta varð síðan alvöru umhugsunarefni þegar Valur hafði fengið samþykkt tilboð í mig og mér var leyft að tala við Val. Það voru góð samtöl og samskipti en hjartað sagði mér að vera áfram í FH,“ sagði Kjartan við Fótbolta.net í dag.