Það var aðeins farið yfir áætlanir spænska stórveldisins Real Madrid fyrir komandi félagaskiptaglugga í sumar í spænska miðlinum Relevo.
Efstur á óskalista Real Madrid fyrir sumarið er Trent Alexander-Arnold hjá Liverpool. Samkvæmt Relevo er félagið nánast búið að semja við bakvörðinn, sem er að renna út af samningi á Anfield og má því fara frítt í sumar.
Það er eina ákvörðunin sem Real Madrid hefur tekið nú þegar og mun það bíða þar til í lok tímabils með aðrar stórar ákvarðanir er snúa að félagaskiptaglugganum.
Heilt yfir eru æðstu menn félagsins ánægðir með leikmannahópinn eins og hann er en horfa til þess að bæta við ungum leikmönnum og vinstri bakverði, auk Trent.
Það gæti þó farið svo að félagið fari í frekari styrkingar ef Real Madrid mistekst að vinna þá titla sem það er á eftir á tímabilinu eða þá ef Vinicius Junior fer óvænt til Sádi-Arabíu, en Sádar eru sagðir til í að gera Brasilíumanninn að dýrasta leikmanni heims.