Richard var dæmdur fyrir að fyrirskipa morð á yfirmanni sínum, Barry Van Treese, árið 1997. Barry þessi var eigandi mótels í Oklahoma en annar maður, Justin Sneed, var einnig dæmdur í málinu og hlaut hann lífstíðarfangelsi.
Sagði Justin að Richard hefði borgað honum 10 þúsund dollara fyrir að drepa Barry. Óumdeilt er að Justin varð Barry að bana en deilt er um hvort það hafi verið að skipun Richards eins og saksóknarar héldu fram á sínum tíma.
Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi þann úrskurð í vikunni að Richard skyldi fá ný réttarhöld. Grundvallaðist úrskurðurinn á þeirri staðreynd að Justin sagði ósatt um ýmsa hluti fyrir dómi. Þá steig fyrrverandi samfangi hans fram og lýsti því að Justin hefði sagst hafa „leitt Richard í gildru“ í málinu og komið sök á hann.
Þá kom síðar í ljós að Justin glímdi við alvarleg geðræn veikindi þegar morðið var framið. Saksóknarar vissu af því en kusu að halda þeim upplýsingum frá kviðdómendum.
Í frétt CNN kemur fram að fimm dómarar Hæstaréttar hafi kosið með því að Richard fengi ný réttarhöld en þrír dómarar voru því mótfallnir.