Það vakti athygli margra í gær þegar Alejandro Garnacho, leikmaður Manchester United, rauk beint inn í klefa eftir að hafa verið skipt af velli í fyrri hálfleik í leiknum gegn Ipswich í ensku úrvalsdeildinni.
United vann mikilvægan 3-2 sigur á nýliðunum í gær, lyfti sér upp í 14. sæti deildarinnar og fjær fallpakkanum. Þá léku lærisveinar Ruben Amorim manni færri meirihluta leiksins í gær en Patrick Dorgu var rekinn af velli seint í fyrri hálfleik. Portúgalinn ákvað þá að gera breytingu og taka Garnacho út af fyrir Noussair Mazraoui til að styrkja stoðirnar varnarlega.
Garnacho tók þessu illa og rauk inn í klefa. Birti hann svo mynd af sér á Instagram eftir leik til að láta pirring sinn vegna atviksins enn frekar í ljós. Amorim var auðvitað spurður út í þetta eftir leik.
„Hugsunin var að spila meira í 5-3-2. Þetta var áhætta því hann er kannski eini leikmaðurinn sem hefur hraða í einn á einn stöður en mér fannst liðinu ganga vel í að stjórna leiknum,“ sagði Amorim.
Amorim var þá spurður að því hvort hann væri ósáttur við hegðun Garnacho og svar hans þá vakti athygli.
„Þú ert að reyna að tengja þetta við Marcus Rashford er það ekki? Ég veit það. Ég mun tala við Garnacho um þetta svo ég get rætt það á næsta fréttamannafundi ef þú vilt.“
Rashford fór auðvitað frá United til Aston Villa í janúar eftir að hafa verið algjörlega úti í kuldanum hjá Amorim.