„Gesturinn í dag er líka okkar sterkasti maður, kóngur, Kristján Berg fiskikóngurinn sjálfur mættur,“ segir Eggert Skúlason þegar hann kynnir nýjasta viðmælanda þáttarins Dagmál, sem fagnaði í gær fjögurra ára afmæli og þátturinn með Kristjáni er númer 1073. Brjóta þeir félagar heilann um hvað það séu margir klukkutímar af efni ef meðalþátturinn er 30 mínútur.
Fiskbúðin á líka bráðum afmæli, verður 35 ára 12. mars, en Kristján var 18 ára þegar hann opnaði hana. Segir hann fáa hafa haft trú á sér, aðra en móður sína, hennar mann, og systur Kristjáns.
„Mamma hafði fulla trú á mér. Þegar ég kom inn í bransann var ég bara kjúklingur. Ég auglýsti ekki fyrsta daginn, opnunardaginn, tók bara úr lás og hélt að fólk myndi mæta. Mamma hjálpaði mér að komast af stað með að auglýsa. Ég hélt bara að yrði full búð en það gerðist ekki. Ég segi að þetta taki fimm ár, ef þú heldur út fyrstu árin. Þú þarft að hafa fimm ára þolinmæði í opnun og rekstur fyrirtækis.“
Hann segir reksturinn ganga vel enn í dag, skila hagnaði og hann vera með sama starfsfólkið og öllum líða vel í vinnunni. Þeir félagar ræða hvaða fiskur er vinsælastur, fiskverð fyrir neytandann, matreiðslu á fiski og fleira tengt fiski sem matvöru.
Kristján selur einnig heita potta og saunaklefa og Eggert spyr hvernig það kom til. Ellefu mánuðir eru síðan Kristján byrjaði að selja saunaklefana, sem slegið hafa í gegn.
„Þú verður háðari notkun á sauna en heitum potti. Þér líður rosalega vel eftir sauna. Það var mjög þekktur glæpamaður sem kom til mín og keypti saunaklefa og hann sagði: „Kristján, ég svitna svo mikið og hreinsa svo vel út að sálin verður bara hrein. Það var auðvitað lygi en skemmtileg saga.“
Kristján Berg fer um víðan völl í viðtalinu og er ekkert óviðkomandi. Trump, innflytjendur og ástand tengt þeim á Suðurnesjum, Sjálfstæðisflokkurinn og hver hann telur að eigi að verða næsti formaður flokksins, Úkraína og hækkuð styrkjagreiðsla til landsins, mæðraveldið og margt fleira ber á góma og Kristján liggur aldeilis ekki á skoðunum sínum.
Eggert nefnir að færslur Kristjáns á samfélagsmiðlum veki oft mikla athygli, þar á meðal ein nýleg þar sem hann kvartaði yfir lélegri þjónustu.
„Ég ríf mikið kjaft, eða ég stundum fer fram úr mér, ég segi bara það sem mér liggur á hjarta og oft er það eitthvað gagnrýnisvert eins og léleg þjónusta,“ segir Kristján og tekur til nokkur dæmi.
Félagarnir ræða hver verði næsti formaður Sjálfstæðisflokksins, en tvær konur eru nú í framboði. Í framhaldi spyr Eggert hvernig Kristjáni lítist á að mæðraveldið hafi tekið við, þar sem konur skipa nú flest valdamestu embætti þjóðarinnar.
„Íslendingar eru alltaf svo ýktir í öllu. Mér finnst við vera komin með of mikið af konum, það er bara mín skoðun. Það þarf að blanda þessu, ég til dæmis í mínu fyrirtæki er með helming konur og helming karlar, það er bara frábær blanda. En að það séu komnar konur í öll embætti og alla stjórnsýslu, það finnst mér ekki gott.“
Eggert bendir á að áður hafi karlar skipað öll embætti og hvort þurfi ekki aðeins að slá ofan í botn áður en blöndunin á sér stað.
„Af hverju látum við ekki bara Noreg stjórna þessu hérna, við erum að gera allt eins og Noregur og norðurlöndin, bara copy paste þýða þetta yfir á íslensku, þurfum ekkert þessa stjórnsýslu hérna, við erum hvort eð er alltaf að gera eins og Noregur og norðurlöndin, látum þau bara stjórna þessu.“
Aðspurður um Trump er svarið einfalt:
„Frábær, geggjaður gæi. Þetta er það sem við þurftum. Trump var ekkert rosalega flottur þegar hann hætti, svo fór hann frá í þessi fjögur ár og kom aftur. Núna er hann elskaður og dáður, hann er að gera frábæra hluti að mínu viti.“
„Ég væri alveg til í að fara í pólitík, ég veit bara ekki hvar ég á að byrja,“ svarar Kristján þegar Eggert spyr hvort hann hafi aldrei hugsað út í að fara í pólitíkina. En segist sjá sig fyrir sér í Sjálfstæðisflokknum, hann sé þó ekki að fara að mæta á landsfund um helgina, en segir stjórnmál mikið rædd á sínu heimili. „Ég bíð bara eftir símtali.“
Eggert segist næst ætla að taka smá Stefán Einar á þetta. „Þú varst ekki alltaf kórdrengur bak við fiskborðið, þú áttir öðruvísi kafla líka.“
„Hann var góður meðan hann var, það var skemmtilegt. Svo gerir maður hluti sem maður ætlar ekki að gera.“
Fyrir 30 árum síðan, þá 24 ára, notaði Kristján ecstasy og segir umræðuna ekki hafa verið mikla þá, þetta sé eina dópið sem hann hafi prófað um ævina. Segist hann ekki vilja hafa sleppa þessari reynslu þó hann hafi lent á vegg.
„Ég fékk risastórt spjald, rautt, ég fékk ekki gult spjald. Ég flutti inn alsælu, 500 töflur og var svo vitlaus að ég var plataður. 250 voru lyftiduft, en ég var dæmdur fyrir 250. Ég sat inni á Litla Hrauni í tæp tvö ár. Þetta er svolítið kjaftshögg, ekki að lenda í þessu, að koma sér í þetta. Þú lendir ekki í einhverju svona, þú kemur þér í aðstæðurnar. En það er eins og ég segi: „Það skíta allir upp á bak, bara spurning hvernig þú skeinir þér, ég er mjög vel skeindur.“
Kristján segist muna fangelsisvistina eins og hún hafi gerst í gær, verst hafi einangrun í tæpa viku í Síðumúlafangelsi verið. Hann segir frá Hegningarhúsinu og Litla Hrauni.
„Ég var hræddur, ég verð að viðurkenna það. Mér leið ekki vel fyrstu vikuna. Í fangelsi eru alls konar menn, bæði góðir og slæmir. Strákar bara eins og ég, góðir og slæmir. Líkur sækir líkan heim, þannig að þú ferð bara að mingla við þá sem eru á sama plani og þú. Svo er bara að komast í gegnum daginn og það er nóg að gera.“
Segir Kristján að það vanti betrun í fangelsisvistun, en sjálfur hafi hann leitað til sálfræðings áður en hann tók fangelsisdóminn út. Aðspurður um hvað hann hafi lært af þessari lífsreynslu.
„Hún gerði mig að þeim manni sem ég er í dag. Ég lærði mikið af þessu. Mér finnst gott að tala um þetta.
Erfiðasta skrefið var að taka alla krakkana mína og segja þeim frá þessu. Það fannst mér erfiðast af öllu. Það tók mig 10-15 ár að setjast niður með krökkunum og segja þeim frá þessu. Jóhann Gunnar sálfræðingur ég talaði við hann og við hóuðum þeim öllum saman og áttum bara góða klukkustund með þeim. Þau vissu þetta allt held ég, en vildu heyra frá mér. Þetta var bara kjarkleysi í mér að þora ekki að stíga skrefið, ég hélt þau myndu hafna mér, þetta var mikill léttir. Það varð allt betra, þetta var erfiðasta skrefið fyrir mig.
Það er fínt að hlaupa á veggi og gera mistök, maður lærir af þeim. Ef maður lærir af þeim!“
Horfa má á viðtalið í heild sinni hér.