Á hvítasunnudag, 6. júní 1976, gekk 28 ára gömul kona frá bifreið sinni að sumarbústað föður síns og móður sem stóð í jaðri skógarins nærri þorpinu Seewen í kantónuninni Solothurn í norðurhluta Sviss. Þorpið þótti friðsælt og unga konan átti því eflaust engan veginn von á þeim hryllingi sem blasti við henni í bústaðnum. Hvað nákvæmlega gerðist í þessum sumarbústað, þessa hvítasunnuhelgi fyrir 49 árum, og hver eða hverjir bera ábyrgð á því er hins vegar enn ráðgáta.
Í bústaðnum voru 5 fullorðnar manneskjur látnar og höfðu allar verið skotnar með riffli í höfuðið og brjóstið. Öll voru þau skotin af mest 3 metra færi og því ljóst að um hreina fjöldaaftöku var að ræða og engin merki voru um að hin látnu hefðu reynt að flýja. Mögulega getur það bent til að þau hafi þekkt morðingjann eða morðingjana.
Hin látnu voru í fyrsta lagi hjónin Eugen Siegrist sem var 63 ára og Elsa Siegrist 62 ára en bústaðurinn var í þeirra eigu. Þar að auki höfðu systir Eugen Anna Westhäuser-Siegrist, sem var áttræð, og synir hennar Emanuel Westhäuser, 52 ára, og Max Westhäuser 49 ára, verið myrt.
Fjögur lík voru inni í húsinu en það fimmta, af Elsu, fannst vafið inn í teppi á tröppunum fyrir utan húsið.
Einu ummerkin á vettvangi voru 13 skothylki úr riffli sem sagður var hafa verið eftirlíking af hinum bandaríska Winchester-riffli.
Morðinginn eða morðingjarnir flúðu á bíl Eugen og Elsu, grænum Opel Ascona, en hann fannst síðar sama dag um 30 kílómetrum norðar.
Við rannsóknina kom í ljós að morðin höfðu verið framin daginn áður, 5. júní, en skotin 13 vöktu enga sérstaka athygli í nágrenninu enda var skotæfingasvæði skammt frá og einnig voru veiðimenn við veiðar í skóginum.
Lögreglan taldi líklegt að Eugen hefði verið aðalskotmarkið og að sá eða þeir sem frömdu verknaðinn hafi reiknað með að þurfa að myrða Elsu líka en það hafi komið viðkomandi verulega á óvart að systir Eugen og synir hennar hefðu líka verið stödd í húsinu.
Rannsókn málsins fór í ýmsar áttir. Robert Siegrist, tvítugur sonur Eugen og Elsu, var handtekinn ásamt unnustu sinni en þau voru fyrst grunuð um að bera ábyrgð á morðinu en þau voru fljótlega hreinsuð af öllum grun þar sem fjarvistarsönnun þeirra þótti algjörlega pottþétt.
Næst beindist athyglin að frænda Eugen, Adolf Siegrist sem var yfirleitt kallaður Johnny. Hann var ekki í miklu sambandi við frænda sinn og fjölskyldu hans. Viðskiptafélagi Johnny, Hans Blaser, taldi næsta víst að hann bæri ábyrgð á morðinu. Blaser taldi að annar maður, Carl Doser, hefði aðstoðað Johnny við morðin. Löngu síðar átti eftir að koma í ljós að Doser sagði lögreglunni ekki satt við yfirheyrslur.
Við rannsókn lögreglu kom í ljós að skotfærin sem notuð voru við morðin höfðu verið keypt í verslun í borginni Basel, sem er um 15 kílómetrum norður af Seewen. Talið var líklegt að það hefði verið Johnny sem keypti skotfærin en ekki tókst að sanna það. Plasthöfuð sem búið var að skjóta í gegnum fundust í íbúð hans. Möguleg ástæða Johnny fyrir að fremja morðin er talin vera sú að Eugen og Elsu höfðu gert grín að honum en Johnny var bæði lágvaxinn og mjóróma.
Johnny lést um áratug eftir að morðin í sumarbústaðnum voru framin.
Ýmsar aðrar mögulegar ástæður voru kannaðar. Maður Anna Siegrist-Westhäuser var þýskur og hafði verið virkur í starfi nasistaflokksins og í sumarhúsinu fundust munir sem ljóst var að tengdust þýskum nasistum. Síðar áttu eftir að finnast gögn sem ýttu frekar undir kenninguna um að morðið hefði eitthvað með slíka muni að gera.
Lögreglan taldi líklegast að Eugen hefði verið helsta skotmark morðingjans. Morðið var talið mögulega tengjast starfi hans hjá efnavöruframleiðandanum Ciba og þá hafi verið hugsanlega um einhvers konar iðnaðarnjósnir að ræða. Einnig var kannað hvort málið hefði eitthvað tengst austur-þýsku öryggislögreglunni STASI en ekkert kom út úr því.
Lögreglunni tókst að finna út að hluta til hvað Eugen gerði síðustu 36 klukkustundirnar sem hann lifði. Daginn áður en morðin voru framin hringdi hann í manneskju frá vinnustaðnum sínum. Líklegast var um að ræða konu að nafni Claire en mögulega karlmann sem hét Clerc. Það hefur aldrei tekist að upplýsa hver það nákvæmlega var sem Eugen hringdi í. Vitað er einnig að fyrr þennan laugardag sem morðin voru framin hafði Eugen yfirgefið bústaðinn í um 2 klukkutíma og ekið í burtu á bíl hjónanna. Hann brá sér raunar iðulega í burtu í svipað langan tíma á laugardögum þegar hjónin dvöldust í bústaðnum. Það hefur hins vegar aldrei tekist að finna út úr því hvert hann fór.
Rannsóknin var afar umfangsmikil og rætt var við nokkur þúsund manns en lögreglan var engu nær og málið lognaðist í kjölfarið út af og ekkert gerðist í tæpa tvo áratugi.
Árið 1996 var unnið að endurbótum á eldhúsi íbúðar í borginni Olten sem er um 20 kílómetrum suðaustan við Seewen. Bak við vegg í eldhúsinu fannst poki. Í honum var riffill sem reyndist vera eftirlíking af þeirri gerð riffla sem kallast Winchester. Hlaup riffilsins hafði verið afsagað. Í pokanum fundust einnig útrunnið vegabréf á nafni áðurnefnds Carl Doser og ýmis skjöl. Meðal þeirra voru tryggingaskírteini og sendibréf til Doser frá föður hans Arnold. Einnig voru í pokanum gömul bréf til Arnold frá þýskum stjórnvöldum, nánar tiltekið frá þeim tíma sem að nasistar réðu ríkjum þar í landi.
Arnold lést 1974 en hann hafði verið foringi í svissneska hernum en vitað var að hann var hallur undir stefnu nasista. Í bréfunum frá Þýskalandi er honum tjáð að Adolf Hitler væri honum þakklátur en ekki kemur fram hvað nákvæmlega Arnold gerði til að fá slíkar þakkir, en talið er mögulegt að þakkirnir hafi verið fyrir mjósnir. Þessi fundur ýtti undir kenningar um að morðið í sumarbústaðnum hefði snúist um að komast yfir muni frá nasistatímanum.
Rannsókn á þessum riffli og skothylkjunum sem fundust í sumarbústaðnum leiddi í ljós að morðvopnið hafði loks verið fundið 20 árum síðar og að það hafði sannarlega verið skráð á Carl Doser. Af hverju morðvopnið var falið á þennan hátt í staðinn fyrir að farga því hefur mörgum sem hafa sökkt sér ofan í málið þótt undarlegt.
Carl Doser fæddist 1947 og var því um þrítugt þegar voðaverkin í sumarbústaðnum voru framin. Hann var yfirheyrður við rannsóknina fljótlega í kjölfar atburðarins eins og svo margir skráðir eigendur Winchester riffla í nágrenninu, eða eftirlíkinga af þeim. Hann gat á þeim tíma ekki upplýst lögregluna um hvar riffillinn hans var niðurkominn. Hann sagði riffilinn hafa reynst gallaðan og það hefði verið of dýrt að gera við hann. Því hefði riffillinn verið seldur á flóamarkaði til einstaklings sem hann vissi ekki hver var og hann hefði ekki hugmynd um hvar hann væri. Rannsóknin beindist í kjölfarið ekki lengur að Doser þar sem lögreglunni tókst ekki að finna út að hann hefði haft einhver veruleg tengsl við Eugen og Elsu og þar með haft einhverja ástæðu til að myrða þau.
Þegar riffillinn fannst 20 árum síðar varð lögreglunni loks ljóst að Carl Doser hafði logið að henni og til að bæta gráu ofan á svart var íbúðin þar sem riffillinn fannst í eigu móður Doser. Það reyndist hins vegar ekki mögulegt að bera lygina upp á hann þrátt fyrir að það hafi verið reynt. Doser yfirgaf Sviss 1977 og síðan hefur ekki verið vitað hvar hann er niðurkominn, sé hann enn á lífi. Talið er mögulegt að hann hafi flutt til Afríku en það er ekki vitað með vissu.
Rannsókn málsins var hætt árið 2006 en þá voru 30 ár liðin frá morðinu fimmfalda og samkvæmt svissneskum lögum var glæpurinn þar með fyrndur.
Áhugi á málinu hefur þó ekkert minnkað. Árið 2018 kom fram í fjölmiðlum að maður nokkur héldi því fram að maður að nafni Peter hefði framið morðið. Sagði hann Peter hafa sýnt sér morðvopnið ári fyrir morðin og að Peter hefði þekkt Carl Doser og einn sona Eugen og Elsu. Morðið var hins vegar eftir sem áður fyrnt og fullyrðingar mannsins voru ekki rannsakaðar af yfirvöldum.
Á síðasta ári sendi hlaðvarpið Swiss Murder Mysteries út 6 þætti sem tileinkaðir voru morðinu í sumarbústaðnum. Í hlaðvarpinu er greint frá að einstaklingur sem vill ekki láta nafns síns getið hafi sent umsjónarmanninum, Rudolph Isler, skjal með ýmsum upplýsingum sem viðkomandi segir að tengist málinu.
Einstaklingurinn nefnir mann, sem ekki er nefndur í þættinum, sem hann telur að hafi keypt morðvopnið af Doser og notað það til að fremja morðin. Segir einstaklingurinn að maðurinn hafi sýnt honum vopnið áður en morðið var framið og heldur því fram að áðurnefndur Johnny, frændi Eugen, hafi útvegað þessum manni skotfæri. Telur einstaklingurinn mögulegt að þessir tveir hafi framið morðið í sameiningu og telur þá líklegt að Doser hafi í raun á engan hátt komið að morðinu, fyrir utan að hafa selt þeim vopnið sem þeir hafi síðan notað til að fremja það, og hafi mögulega sjálfur verið myrtur og þess vegna hafi hann ekki fundist og að þannig hafi morðingjarnir komist yfir lykla að íbúð móður Doser og falið morðvopnið þar til að koma sökinni á hann.
Af samhengi þáttarins má ráða að einstaklingurinn er að vísa til áðurnefnds Peter. Segist einstaklingurinn ekki hafa ætlað sér að nefna Peter opinberlega en nafninu hafi verið lekið í fjölmiðla. Í kjölfarið hafi hann verið kærður fyrir meiðyrði og rætt við saksóknara sem hafi tjáð honum að Peter hefði ávallt verið grunaður um aðild að morðinu.
Fram kemur líka í þættinum að vitni segist hafa séð mann sem svipað hafi til þessa grunaða manns (Peter) skjóta úr Winchester-riffli í nágrenni Seewen daginn sem morðið var framið. Samkvæmt vitnisburðinum var sá maður hins vegar á bíl en morðinginn eða morðingjarnar notuðu bíl Eugen og Elsu til að flýja af vettvangi.
Peter harðneitar því að hafa komið nálægt morðinu.
Í hlaðvarpinu kemur fram að vísbendingar hafi fundist um að Carl Doser sé mögulega enn á lífi og hafi unnið fyrir þýskt fyrirtæki í Afríku en búi nú í Þýskalandi en við nánari skoðun hafi það reynst ólíklegt að maðurinn sem hafi verið talinn Doser sé það í raun og veru.
Á næsta ári verða 50 ár liðin frá því að þessar fimm manneskjur voru skotnar til bana í sumarbústaðnum í skóginum. Eins og hér hefur verið rakið hefur málið verið skoðað frá ýmsum hliðum en það virðist verða sífellt ólíklegara að það muni nokkurn tímann verða upplýst og því munu líklega seint fást svör við þeirri spurningu hvað nákvæmlga gerðist í þessum bústað í skóginum nærri svissneska þorpinu, sem almennt var talið vera friðsælt, á laugardeginum fyrir hvítasunnu 1976.