„Ég er enginn sérstakur aðdáandi Donald Trumps en mér finnst stefna hans í Úkraínustríðinu skárri en það sem stjórn Biden stóð fyrir. Stríðið hefur staðið yfir í þrjú ár. Evrópa er frekar ráðvillt, án augljóss leiðtoga þó Macron reyni að fylla í skarðið, og skiljanlegt að Trump vilji ekki hafa þetta fólk við samningaborðið. Þó hefur aðalsamningamaður Bandaríkjanna beðið ESB og Úkraínu um tillögur og hugmyndir sem hjálpa til að koma á friði í landinu. Utanríkis- og öryggismálastóri ESB talar um að brjóta Rússland upp í mörg smáríki sem er ekki til þess fallið að lægja öldurnar milli ESB og Rússlands,“ segir Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, í viðtali við DV.
Hilmar ræðir um þróun heimsmála undanfarið, ekki síst í tengslum við Úkraínustríðið. Mikil óvissa ríkir í Evrópu um öryggi í álfunni í komandi framtíð vegna breyttrar utanríkisstefnu Bandaríkjamanna og minnkandi áherslu Trumps forseta á samstarf innan NATO.
„Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lagt áherslu á að binda enda á Úkraínustríðið og semja frið við Rússland og stöðva frekara mannfall í Úkraínu. Leiðtogar Evrópu, sem margir trúðu á fullnaðarsigur Úkraínu á vígvellinum, halda áfram fjáraustri í vopnakaup, en eru nú tvístígandi vegna ummæla Trumps. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, var nýlega í Washington til að lægja öldurnar milli Bandaríkjanna og Evrópu. Hugsanlega tekst að semja um frið á næstunni, en óljóst er um öryggistryggingu fyrir Úkraínu. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hefur sagt að bandarískir hermenn verði ekki í Úkraínu og Rússar vilja ekki hermenn frá NATO í landinu, enda mætti þá segja að Úkraína væri óformlegur aðili að NATO,“ segir Hilmar og setur spurningu við nýjan varnartengdan stuðning Íslands við Úkraínu, upp á 2,1 milljarð króna á þessu ári. Telur hann að Ísland ætti að veita annars konar stuðning en til vopnakaupa:
„Íslensk stjórnvöld leggja enn áherslu á vopnakaup og einnig stuðning við framleiðslu dróna fyrir Úkraínu. Mér er ekki ljóst hvaða sérþekkingu Ísland hefur á þessu sviði. Íslenskir stjórnmálamenn hafa hæðst að hugmyndum um stoðtæki til Úkraínu þó vitað sé að gífurlegur fjöldi Úkraínumanna hafa örkumlast og séu óvinnufærir. Hafa þarf í huga að fyrir hvern hermann á vígvellinum þarf a.m.k. nokkra almenna borgara sem starfa í hagkerfinu, greiða skatta til að standa undir launum fyrir hvern hermann og nauðsynlegum búnaði. Það er því afar brýnt að fólk sem hefur örkumlast verði vinnufært til að styrkja stöðu Úkraínu. Framlag Ísland á þessu sviði væri því afar mikilvægt fyrir varnir Úkraínu.“
Hilmar Þór telur að Íslendingum sé nauðugur sá kostur að efla varnarsamstarf við Bandaríkin. Við getum ekki treyst þar á Norðurlönd og Eystrasaltsríkin:
„Stjórnvöld á Íslandi vísa oft til samstarfs Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Þessi lönd hafa allt aðra stöðu en við. Þau reka öll sinn her og eru sum afkastamikil í vopnaframleiðslu. Þess vegna geta þau frekar veitt stuðning á sviði hernaðar og vopna. Þau hafa allt aðra legu en Ísland, eru nær Rússlandi og þess vegna í viðkvæmari stöðu. Ef stríð brýst út hafa þessi lönd nóg með sjálf sig og ég á erfitt með að sjá þau koma Íslandi til varnar. Við verðum að setja okkar traust á varnarsamninginn við Bandaríkin og veru okkar í NATO.
Á Keflavíkurflugvelli fer samkvæmt utanríkisráðuneytinu fram talsverð uppbygging. Þar má t.d. nefna byggingu gistirýmis til að taka við auknum erlendum liðsafla, byggingu birgðageymslna og stækkun flughlaða. Talað er um stækkun eldsneytisbirgðageymslu og gerð nýs viðlegukants í Helguvík, eflingu stjórnstöðvar fyrir kafbátaeftirlit, o.s.frv. Kjarnorkuknúnir kafbátar eru líka farnir að koma í Helguvík og nú nýverið í Eyjafjörðinn.
Ég er lítt hrifinn af hernaði en við þær aðstæður sem nú eru í heiminum þurfum við að vinna með Bandaríkjunum, ekki með símhringingum til Donald Trumps til að lesa honum pistilinn vegna Grænlands, heldur með því að byggja upp viðbúnað á Keflavíkurflugvelli í samvinnu við þá aðila í bandaríska stjórnkerfinu sem um þessi mál sjá. Ég þekki af eigin raun sem fyrrum aðstoðarmaður utanríkisráðherra að við getum vel unnið með Bandaríkjamönnum á þessu sviði með öryggishagsmuni beggja landanna í huga. Við eigum ekki annarra kosta völ. Varnarsamningurinn er svo rammi utan um þetta samstarf.“
Sem fyrr segir telur Hilmar að Trump sé með skynsamlegri nálgun á Úkraínustríðið en Evrópusambandið hefur. Hann spyr hvernig þetta stríð geti eiginlega haldið áfram:
„Hvað ætlar ESB að gera til að hægt sé að halda þessu stríði áfram? Lækka herskyldu í Úkraínu niður í 18 ár? Hvar á svo að fá vopn? Hver á svo að byggja upp Úkraínu að stríði loknu? Donald Trump var kjörinn lýðræðislega sem forseti Bandaríkjanna hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Svo er það spurningin hvað ríkisstjórn Íslands er að gera til að verja okkar hagsmuni, t.d. sæstrengi í kringum landið. Við erum að senda vopn til Úkraínu og við vitum hvað er að gerast á Eystrasaltinu. Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin eru í vandræðum með að verjast tjóni.“
Hann telur að efla þurfi Landhelgisgæsluna og virkja í samstarfi við Bandaríkin:
„Landhelgisgæslan hefur lengi verið fjársvelt og spennan á norðurslóðum vex meðal annars vegna Úkraínustríðsins. Þetta er vegna þess að Rússland og Kína hafa nú enn nánari samvinnu. Stríðið í Úkraínu hefur svo verið eins og skattur á efnahag Evrópu sem fær ekki gas og önnur hráefni frá Rússlandi á hagstæðum kjörum, en himnasending fyrir Kína sem eykur utanríkisviðskipti sín við Rússland og styrkir samkeppnisforskot sitt á kostnað iðnríkja eins og Þýskalands. Stríðið í Úkraínu þarf að taka endi þannig að frekara tjón Úkraínu verði lágmarkað og að uppbygging geti hafist.
Trump viðraði nýlega kröfu Bandaríkjanna um aðgang að auðlindum landsins að upphæð 500 milljarðar Bandaríkjadala. Auðvitað þarf Úkraína að fá að nýta sínar auðlindir í eigin þágu. Samt verður að hafa í huga að ekki tókst betur en svo að frá því Úkraína hlaut sjálfstæði 1991 til 2021 var enginn hagvöxtur í landinu. Nú heyrist að hugsanlega séu Úkraína og Bandaríkin að komast að samkomulagi um þetta mál, en mikilvægt er að það samkomulag tryggi hagsmuni Úkraínu. Samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðabankans, framkvæmdastjórnar ESB og Sameinuðu þjóðanna er áætlað að heildarkostnaður við enduruppbyggingu í Úkraínu verði um 524 milljarðar Bandaríkjadala.
Við Íslendingar þurfum að mínum dómi að efla Landhelgisgæsluna þannig að hún sinni ekki bara borgaralegum verkefnum heldur líka vörnum í samvinnu við Bandaríkin og NATO. Samkvæmt utanríkisráðuneytinu sér Landhelgisgæslan um rekstur íslenska loftvarnakerfisins, tekur þátt í samræmdu loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu á vegum NATO. Hún þjónustar einnig bandaríska kjarnorkukafbáta sem koma til Helguvíkur og nú nýverið líka í Eyjafjörðinn. Öflugri Landhelgisgæsla þjónar öryggishagsmunum Íslands, Bandaríkjanna og NATO. Þetta er nauðsynlegt miðað þá stórveldasamkeppni sem komin er upp í heiminum og þá ókyrrð sem henni fylgir líka í okkar bakgarði, norðurslóðum.“