Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur boðað það að ríkum útlendingum muni brátt standa til boða að kaupa svokallað gullkort til að starfa og búa í Bandaríkjunum. Verðmiðinn á kortinu verði 5 milljónir bandaríkja dala sem eru um 700 milljónir króna. Það geti síðan leitt til þess að auðkýfingarnir fái ríkisborgararétt í Bandaríkjunum.
„Við höfum verið með græna kortið en þetta verður gyllta kortið,“ sagði Trump á blaðamannafundi í gær.
Sagði hann söluna á kortunum myndi hefjast eftir um tvær vikur og bjóst hann við því að mikil ásókn yrði í slík kort. Milljónir slíkra korta myndu seljast.
Aðspurður hvort að hann myndi selja slík kort til rússnesnkra olígarka sagði Trump: „Já, mögulega. Ég þekki nokkra rússneska olígarka og þeir eru mjög gott fólk,“ sagði Trump.
Viðskiptaráðherrann Howard Lutnick útskýrði síðan að gerð yrði bakgrunnsrannsókn á umræddum auðkýfingum til að tryggja að þeir væru „frábærir heimsborgarar“.
Hið gyllta kort mun koma í stað svokallaðrar EB-5-leiðar sem ýtt var úr vör árið 1992 og veitir útlendinngum sem fjárfesta í Bandaríkjunum, fyrir um eina milljón dollara, möguleika á því að öðlast græna kortið.