Þremur leikjum var að ljúka í ensku úrvalsdeildinni.
Wolves tók á móti Fulham og fór leikurinn fjöruglega af stað. Ryan Sessegnon kom gestunm yfir strax á 1. mínútu leiksins en Joao Gomes svaraði fyrir Úlfana á 18. mínútu. Staðan í hálfleik var jöfn.
Hún var það hins vegar ekki lengi í seinni hálfleik því snemma eftir hlé skoraði Rodrigo Muniz það sem reyndist vera sigurmark Fulham. Lundúnaliðið er í 9. sæti deildarinnar með 42 stig en Wolves er í 17. sæti með 22 stig.
Crystal Palace vann þá mjög öruggan sigur á Aston Villa í London. Ismaila Sarr sá til þess að Palace leiddi 1-0 í hálfleik en snemma í þeim seinni jafnaði Morgan Rogers fyrir Villa.
Þá tók Palace hins vegar öll völd og kom Jean-Philippe Mateta þeim yfir eftir tæpan klukkutíma leik áður en Sarr skoraði sitt annað mark. Eddie Nketiah innsiglaði svo 4-1 sigur í restina. Palace er í 12. sæti með 36 stig, 6 stigum á eftir Villa sem er í 10. sæti.
Loks vann Brighton sigur á Bournemouth í Suðurstandarslag. Joao Pedro kom heimamönnum yfir á 12. mínútu og leiddu þeir 1-0 í hálfleik. Justin Kluivert jafnaði leikinn eftir um klukkutíma áður en Danny Welbeck kom Brighton yfir á ný. Reyndist það sigurmarkið og lokatölur 2-1.
Bournemouth og Brighton eru hlið við hlið í 7. og 8. sæti deildarinnar með 43 stig.