Innviðaráðuneytið sem fer með sveitarstjórnarmál í landinu hefur sent frá sér álit vegna kvörtunar yfir úthlutun Dalvíkurbyggðar á leyfi til þyrluskíðaferða á landi í eigu sveitarfélagsins. Var einu fyrirtæki veittur einkaréttur til ferðanna til næstu 20 ára án þess að útboð færi fram. Ráðuneytið segir þessa úthlutun ekki í samræmi við jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar en ætlar sér hins vegar ekki að ógilda ákvörðunina eða gera nokkuð annað en minna sveitarfélagið á að vanda betur til slíkra úthlutana í framtíðinni.
Fyrirtækið Viking Heliskiing ehf. kærði í nóvember síðastliðnum þá ákvörðun sveitarfélagsins, frá því í júní síðasta sumar, að úthluta einkaréttinum til Bergmanna ehf. Kærunni var vísað frá á þeim grundvelli að ákvörðun sveitarstjórnar hafi ekki falið í sér ákvörðun um rétt og skyldu manna. Ráðuneytið tók hins vegar þá ákvörðun að fjalla formlega um stjórnsýslu sveitarfélagsins í málinu og senda frá sér álit.
Í álitinu kemur fram að Dalvíkurbyggð og Bergmenn hafi gert með sér samning fyrst í febrúar 2012, þar sem fyrirtækinu var veittur einkaréttur til afnota af landi sveitarfélagsins til þyrluskíðaferða. Var samningurinn gerður tímabundið frá 1. mars 2012 til tólf ára og að leigutíma liðnum skyldi samningurinn renna út án sérstakrar uppsagnar. Væru aðilar sammála um áframhaldandi afnotarétt skyldi samningurinn framlengjast ótímabundið.
Í maí 2023 óskaði Viking Heliskiing eftir upplýsingum um hvort sveitarfélagið hygðist bjóða út afnotarétt af landinu á komandi árum og lýsti um leið yfir áhuga á því að bjóða í afnotaréttinn, hvort sem útboð yrði eða ekki. Sveitarfélagið svaraði erindinu 22. apríl 2024 en þar kom fram að ekki hefði verið tekin afstaða til þess hvort afnotarétturinn yrði boðinn út eða ekki, en að sveitarstjórn hafi á fundi sínum 20. febrúar 2024 samþykkt að framlengja samninginn við Bergmenn til 1. ágúst 2024.
Á fundi sveitarstjórnar 18. júní 2024 hafi svo verið ákveðið að veita Bergmönnum þennan afnotarétt af landi sveitarfélagsins til 20 ára. Var Viking Heliskiing tilkynnt um ákvörðunina daginn eftir með þeim orðum að útboð hefði ekki farið fram enda hafi það ekki verið skylt samkvæmt þeim reglum og viðmiðum sem gildi um slíkt.
Samkvæmt samningi Bergmanna og Dalvíkurbyggðar hefur fyrirtækið einkarétt, gegn greiðslu endurgjalds, til að nota nánar tiltekið land í eigu eða umsjón sveitarfélagsins til þyrluskíðaferða. Með samningnum er sveitarfélagið einnig skuldbundið til að heimila öðrum aðilum ekki sömu eða sambærileg afnot af landinu á gildistíma samningsins. Taldi Viking Heliskiing þessa málsmðferð hafa verið í andstöðu við stjórnsýslulög og meginreglur stjórnsýsluréttar, einkum jafnræðisregluna.
Dalvíkurbyggð tjáði innviðaráðuneytinu að það teldi að málefnaleg sjónarmið hefðu legið að baki þessari ákvörðun. Bergmenn hefðu verið eina fyrirtækið sem hefði lýst yfir áhuga með formlegum hætti. Markmiðið með samningnum hefði verið að byggja upp ferðaþjónustu í sveitarfélaginu og stuðla að nýsköpun.
Taldi sveitarfélagið að engar forsendur hefðu verið til þess að auglýsa umrætt svæði til leigu og að í eldri samningnum við Bergmenn frá 2012 væri kveðið á um forleigurétt fyrirtækisins, kæmi til útboðs eða önnur tilboð bærust í afnotaréttinn. Því hafi fyrirtækið átt réttmætar væntingar til þess að fá samninginn endurnýjaðan. Um væri að ræða einkaréttarlegan samning sem sveitarfélagið hefði fullt forræði yfir. Sjónarmið um samkeppni kæmu ekki til álita og vísaði Dalvíkurbyggð til þess að Viking Heliskiing væri sjálft með sams konar samning við annað sveitarfélag.
Taldi sveitarfélagið að yrði ákvörðunin felld úr gildi myndi það setja það í mikla óvissu hvert valdsvið sveitarfélaga væri og að Bergmenn myndu þá um leið eignast rétt á skaðabótakröfu á hendur Dalvíkurbyggð.
Innviðaráðuneytið segir að ákvörðun Dalvíkurbyggðar og gerð samningsins við Bergmenn hafi ekki byggst á ákvæðum settra laga og teljist því til ólögbundinna verkefna. Ólögbundin verkefni sveitarfélaga verði almennt að fullnægja því skilyrði að teljast sameiginlegt velferðarmál íbúa viðkomandi sveitarfélags og verði ákvörðun sveitarfélags um rækslu ólögbundins verkefnis að vera í samræmi við almennar grundvallarreglur stjórnsýsluréttar og stjórnarskrár.
Um hafi verið að ræða gerð tvíhliða samnings á einkaréttarlegum grundvelli en ekki stjórnvaldsákvörðun. Þrátt fyrir það gildi um meðferð málsins ákveðnar óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar. Þessar óskráðu meginreglur snerti m.a. undirbúning og rannsókn máls, skyldu til að byggja ákvarðanir í stjórnsýslu á málefnalegum sjónarmiðum og að gæta jafnræðis borgaranna.
Ráðuneyti segir það óumdeilt að Viking Heliskiing hafi lýst yfir áhuga á að bjóða í afnotaréttinn af landinu. Sú fullyrðing Dalvíkurbyggðar að aðeins Bergmenn hafi gert það standist því ekki. Ráðuneytið tekur heldur ekki undir það að markmiðum um uppbyggingu í sveitarfélaginu hafi ekki verið hægt að ná með vægari hætti en að veita Bergmönnum einkarétt til þyrluskíðaferða næstu 20 árin.
Það er því niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð Dalvíkurbyggðar í málinu hafi ekki verið í samræmi við jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Markmið þess með samningnum við Bergmenn hafi ekki verið ómálefnaleg en þeim hafi mátt ná með því að auglýsa landið til útleigu.
Hér er þó aðeins um álit að ræða en ekki úrskurð og ráðuneytið mun ekki ógilda þessa ákvörðun Dalvíkurbyggðar og vísar það þá ekki síst til hagsmuna Bergmanna. Það segir mat á hugsanlegri bótaábyrgð sveitarfélagsins gagnvart Viking Heliskiing vera verkefni fyrir dómstóla.
Innviðaráðuneytið beinir því að lokum til Dalvíkurbyggðar að hafa þau sjónarmið sem reifuð eru í álitinu til hliðsjónar við úthlutun takmarkaðra gæða í framtíðinni. Beri sveitarfélaginu að gæta að grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um jafnræði, réttmæti og meðalhóf þegar komi að töku ákvarðana og við málsmeðferð mála, sem snúi að úthlutun gæða sveitarfélaga eða mála sem snúi að veitingu sérstakra ívilnana án auglýsingar.