Möguleiki er á að það bresti á með þrumum og eldingum um landið sunnan- og vestanvert þegar éljaloft gengur yfir landið í kvöld og til morguns. Þetta kemur fram í athugasemdum veðurfræðings við veðurspá næsta sólarhringinn inn á vef Veðurstofunnar.
Í byrjun febrúar gekk eldingaveður yfir höfuðborgarsvæðið og vakti það mikla athygli þegar eldingu laust niður í Hallgrímskirkjuturn.
Horfur næsta sólarhringsins eru annars þær að búist er við suðvestlægri eða breytilegri átt með 5-13 m/s. Dálítil snjókoma og hiti um eða undir frostmarki. Éljagangur sunnan- og vestantil síðdegis, en birtir til um landið norðaustanvert.
Víða él á morgun, en úrkomuminna norðanlands. Frost 0 til 7 stig, en sums staðar frostlaust við suður- og vesturströndina.