Verið var að flytja hann úr fangelsinu, þar sem hann afplánaði dóm, í dómhús þar sem rétta átti yfir honum. Setið var fyrir fangaflutningabílnum við vegtollahlið á hraðbraut og voru tveir fangaverðir skotnir til bana áður en Amra slapp á brott.
Mikil leit hófst strax að honum og tóku mörg þúsund lögreglumenn þátt í henni. En hún bar engan árangur fyrr en á laugardaginn þegar hann var handtekinn í Rúmeníu. Franski innanríkisráðherrann skýrði frá þessu á samfélagsmiðlinum X.
Í fyrirsátinni voru þeir Fabrice Moello, 52 ára tveggja barna faðir, og Arnaud Garcia, 34 ára, sem átti von á fyrsta barni sínu, skotnir til bana. Þrír fangaverðir til viðbótar særðust.
Upptökur úr eftirlitsmyndavélum sýndu að svörtum jeppa var ekið framan á fangaflutningabílinn og að minnsta kosti tveir grímuklæddir menn báru eld að fangaflutningabílnum.
Amra, sem er um þrítugt, sat í fangelsi fyrir ýmis smáafbrot en var grunaður um að vera þátttakandi í alþjóðlegum smyglhring. Hann er talinn hafa tengsl við valdamikið glæpagengi í Marseille og var verið að rannsaka tengsl hans við mannrán og morð í borginni.
Hann er einnig grunaður um að hafa fyrirskipað morð á Frakka á Spáni árið 2023.