Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens varar fólk við svikahröppum sem reyna að blekkja fólk á gerviaðgöngum í nafni hans á Facebook og Instagram.
„Enn og aftur að gefnu tilefni það eru tvær síður hér á fésinu sem tilheyra mér þessi og svo hin opinbera síða sem er auðkennd með blárri stjörnu. Þessi síða er með um 5000 meðlimi hin er með eitthvað í kringum 17-18 þúsund,“
skrifar Bubbi á Facebooksíðu sína, en á hefðbundnum síðum á Facebook er vinahámarkið 5000. Bubbi er því eins og margir þekktir einstaklingar með svokallaða Like-síðu þar sem vinafjöldinn getur orðið meiri.
Óprúttnir einstaklingar hafa hins vegar tekið upp á því að stofna síður í nafni Bubba og nota myndir af honum og fjölskyldu, allt til þess að blekkja fólk og jafnvel hafa af þeim pening.
„Það eru nokkrar síður þarna með myndum af mér og fólki mínu það eru óprúttnir aðilar sem eru að pretta fólk reyna komast yfir pening eða annað. Sumar hafa náð í smá fjölda til sín.“
Segir Bubbi að engin leið virðist til að stoppa þetta, en um leið og samskipti hefjist megi sjá að maðkur er í mysunni.
„Það er engin leið að mér virðist til að stöðva þetta þannig það eru instagram prófílar 1-2 núna og kringum 3 prófílar á fésinu sem eru með front sem lúkkar með myndum af börnum mínum eiginkonu af okkur saman og allt það.
Hins vegar kemur strax í ljós þegar samskipti hefjast á bjagaðri íslensku að ekki er allt sem sýnist mér þykir leiðinlegt ef einhverjir láta glepjast.“