Egill gerir þar mál vina sinna, Tomasso og Analis, að umtalsefni en þau koma frá Venesúela og þrá ekkert heitar en að búa á Íslandi.
„Þau komu hingað sem flóttamenn þegar Íslendingar opnuðu landamærin fyrir Venesúelabúum, þurftu að fara úr landi þegar stefnunni var breytt en komu svo aftur í von um að geta fengið atvinnuleyfi,“ segir Egill og bætir við að ferðamannaáritun þeirra renni út í byrjun marsmánaðar.
Egill ber þeim vel söguna og segir að þau gætu gert mikið gagn á Íslandi.
„Þau eru heiðarleg, mjög dugleg, hjálpsöm, kunna til margra verka og eru svona undarlega hrifin af Íslandi. Sjá ekkert nema gott í landi og þjóð. En fá barasta ekki að vera hérna. Gætu orðið svo nýtir borgarar, eru til í að gera svo margt, læra svo margt,“ segir hann og bætir við að nú neyðist þau til að snúa aftur til Venesúela þar sem er engin framtíð fyrir þau.
„Einræði, ofbeldi og fátækt. Kvíðinn leynir sér ekki þótt þau séu glaðvær og beri sig vel. Við eigum erfitt með að tala um þetta. Ég er afar sorgmæddur og endurtek: Hvað er hægt að gera?“
Egill skrifaði færslu um vinafólk sitt í fyrrasumar en þá voru Tomasso og Analis á leið úr landi. Sagði hann að þau væru eitthvert besta fólk sem hann hefur kynnst á ævinni. „Þau eru hjálpsöm, óeigingjörn, harðdugleg – þau hafa hjálpað okkur við ýmsa hluti, sérstaklega þegar við stóðum í flutningum – og aldrei vildu þau fá neitt í staðinn,“ sagði hann meðal annars.