Dóttir Mána var 12 ára þegar árásin var framin en drengirnir höfðu fengið stúlkuna til að hitta sig á skólalóðinni kvöld eitt í október. Þar köstuðu þeir stíflueyðisdufti í andlit hennar og má stúlkan teljast heppin að hafa ekki misst sjónina. Tókst henni að hlaupa í næsta hús og fá viðeigandi aðstoð. Hún glímir þó enn við afleiðingarnar og þarf að fara til læknis reglulega í eftirlit.
Í viðtalinu kemur fram að Máni hafi ekki ætlað sér að ræða málið í fjölmiðlum en eftir umfjöllun um stöðu mála í Breiðholtsskóla hafi hann séð hvað foreldrar þar eru að ganga í gegnum og hvað kerfið er máttlaust og óvirkt.
Sem dæmi um það kveðst Máni hafa rætt við skólastjórann og fengið þau skilaboð að aðeins væri hægt að vísa skólafélaga hennar úr skóla í sjö daga. „Hann hafi ekki önnur úrræði. Þau geti reynt að passa að þau hittist ekki í tvær vikur í skólanum,“ segir hann meðal annars.
Hinn drengurinn var ekki í sama skóla þegar árásin var framin en með „nokkur mál á bakinu“ eins og það er orðað. Ákváðu foreldrar stúlkunnar að taka hana úr skóla eftir að sá drengur var farinn að mæta aftur á skólalóðina á skólatíma eftir að dóttir hans var komin aftur í skólann.
„Ég treysti ekki skólanum eða Reykjavíkurborg. Ég bar núll traust til kerfisins,” segir Máni og tekur fram að það hafi verið stór ákvörðun að taka stúlkuna úr skólanum þar sem vinir hennar eru.
„Já, og það er ömurlegt að eftir allt þetta þá er það hún sem situr uppi með að þurfa að skipta um skóla. Hún situr uppi með líkamlegar afleiðingar sem hún mun vera með alla ævi.”
Ítarlega er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.