fbpx
Sunnudagur 23.febrúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Hlustið á Þorgrím Þráinsson

Eyjan
Sunnudaginn 23. febrúar 2025 15:00

Lágmynd frá Aþenu sem sýnir glímumenn, hoggin um 510–500 fyrir Kristburð.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir fáeinum dögum greindi Morgunblaðið frá alvarlegu ofbeldi sem viðgengist hefur í Breiðholtsskóla um margra ára skeið. Málið hefur vakið mikla athygli en kennarar og starfsmenn skólans finna til vanmáttar og öryggisleysis gagnvart vandanum og kalla eftir tafarlausum aðgerðum. Síðan þá hafa ýmsir hlutaðeigandi úr kerfinu stigið fram og beitt fyrir sig orðaleppum, eins og skorti á „sértækum úrræðum“ og „réttum verkferlum“. Sem fyrr er vandi sem þessi ekki einu sinni kallaður sínu rétta nafni — slík er launhelgin sem hvílir yfir agaleysinu, sem færa má rök fyrir að sé mesta meinsemd þessa samfélags.

Mér þótti því kveða við hressilegan tón í Kastljósi ríkissjónvarpsins síðastliðinn miðvikudag þegar hinn þjóðkunni rithöfundur, Þorgrímur Þráinsson, ræddi vanda barna og ungmenna, sem hann þekkir vel af samtölum við þúsundir grunnskólanema árum saman. Hann gagnrýndi að feimni, ótti, áhyggjur, streita og óöryggi væru nú orðið skilgreind sem „kvíði“ og börn sett á pillur við hvers kyns vanda sem hægt væri að leysa með betri hætti — en fyrir það fyrsta yrði að draga úr snjallsímanotkun barna og auka hreyfingu þeirra og útiveru. Um leið þyrfti að treysta börnum betur sjálfum við að leysa úr hverri þraut.

Þorgrímur kemur inn á þetta í fyrirlestrum sem hann hefur flutt fyrir unglingum víðs vegar um land um langt árabil en kjarninn í boðskapnum er þessi: „Hættu þessu væli, leggðu þig fram, berðu virðingu fyrir fólki, gerðu góðverk, settu þér markmið“ og hann bætir við: „Það eru fullt af fórnarlömbum á Íslandi. Ekki þú vera þar.“

Skólana skortir íþróttaanda

Mig langar að taka undir með Þorgrími og bæta því við að innleiða þarf íþróttaanda í skólana. Við blasir að alltof mikið er einblínt á veikleika nemenda og umræðan um ofbeldið í Breiðholtsskóla varpar ljósi á þá afstöðu sem birtist í kerfinu að skóli sé umfram allt félagsmálastofnun þar sem stór hluti nemenda er greindur með kvilla og jafnvel svo að hinn meinti kvilli fer að móta sjálfsmynd nemandans í stað þess að hann rækti hæfileika sína. Sumir ganga svo langt að kalla þetta aumingjavæðingu og líklega með réttu.

En til að skapa íþróttamenningu innan skólanna þarf að raða nemendum eftir getu, innleiða samræmd próf á nýjan leik og fá kennaranum það agavald sem hann áður hafði — að hann hafi raunveruleg úrræði til að bregðast við agavanda inni í skólastofunni. Kennari á að hafa sömu stöðu og þjálfari íþróttaliðs; góður kennari þarf að vera verkstjóri par excellence sem setur nemendum háleit markmið um að komast í fremstu röð. Skólarnir þurfa að tileinka sér hugsjónir íþróttahreyfingarinnar — þar sem hinn eldforni lærdómsandi lifir enn sem betur fer.

Menntahrokinn gerir vart við sig

Kona að nafni Hulda Jónsdóttir Tölgyes, sálfræðingur að mennt en betur þekkt sem hlaðvarpsþáttarstjórnandi, skrifaði pistil sem birtist á Vísi þar sem hún gagnrýndi Þorgrím harðlega fyrir að tjá sig óvarlega um mál sem væri ekki á hans fræðasviði. Þessi grein vakti talsverða athygli og ég sá ýmsa aðra sérmenntaða í áþekkum greinum taka í sama streng: Málflutningur Þorgríms væri vart svara verður þar sem hann hefði ekki viðeigandi prófgráður og sjónarmið hans í ofanálag gamaldags. Eiginmaður áðurnefndrar konu, kynjafræðingur að mennt, skrifaði síðan pistil með konu sinni þar sem þau hjónin segja Þorgrím miðla „eitraðri jákvæðni“ og „einstaklingshyggju-lífsgildi sem eru beinlínis skaðleg“ en þau gera sérstaklega að umtalsefni að Þorgrímur hafi ekki lokið háskólaprófi og kalla hann „risaeðlu“ og „forréttindafirrtan“.

Mér þykir við komin á undarlegan stað í rökræðunni þegar slíkt óþol er orðið hjá mörgum gagnvart þekkingu reynslumikilla leikmanna. Að vísa til prófskírteinis eða skorts á tiltekinni menntun er ekki gild röksemd (og þaðan af síður er það málstað nokkurs til framdráttar að uppnefna menn). Hinn sjálfmenntaði og sá sem lært hefur af reynslunni kann að hafa fram að færa sjónarmið sem vert er að hlýða á. Sannir vísindamenn eru tilbúnir að kynna sér röksemdir af yfirvegun óháð því hvaðan þær koma — og um leið efast stöðugt um viðtekin sjónarmið í sínum fræðum. Í því máli sem hér er til umræðu blasir líka við að kerfið og sérfræðingarnir hafa að einhverju marki brugðist og þeim mun brýnna að hlýða á fleiri sjónarmið.

Og ef út í það er farið er líklega fátt jafn óvísindalegt og það að miklast af eigin prófgráðu eða kenna öndverð sjónarmið við eitthvað sem menn kalla „upplýsingaóreiðu“ eins og stundum heyrist í okkar samtíma.

Höfum villst af leið

Þegar kemur að menntun og uppeldi barna og ungmenna vita menn af aldalangri reynslu hvað virkar og hvað ekki — aftur á móti er lítil reynsla á margt það nýstárlega sem reglulega er kynnt í fræðunum og þeim mun meiri ástæða til að taka því af varúð þó sitthvað af því kunni að reynast gagnlegt. Sjónarmið reynslumikilla leikmanna, eins og Þorgríms Þráinssonar, eiga þeim mun brýnna erindi í umræðuna.

Agaleysið er þjóðarböl sem þarf að ræða opinskátt og þrátt fyrir að agaleysi í skólum sé heimafenginn vandi þá geta og eiga skólar að gegna mikilvægu hlutverki í almennu uppeldi barna, unglinga og ungs fólks. Þar er rétt að menn læri virðingu, umburðarlyndi og sjálfsaga. En til þess að svo megi verða þarf að búa kennurum úrræði til að taka á agavanda af festu, hefja kennarann á sinn fyrri stall þar sem hann er verkstjóri par excellence. Um leið þarf að stórauka skipulagða hreyfingu í skólum og innleiða íþróttaanda. Við blasir að við höfum villst af leið og þurfum að rétta kúrsinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Verum viðbúin!

Thomas Möller skrifar: Verum viðbúin!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Alþingi og óveðrið

Óttar Guðmundsson skrifar: Alþingi og óveðrið
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína: Hafrannsóknastofnun í núverandi mynd er ógn við náttúru og lífríki Íslands

Steinunn Ólína: Hafrannsóknastofnun í núverandi mynd er ógn við náttúru og lífríki Íslands
EyjanFastir pennar
21.01.2025

Svarthöfði skrifar: Leitið ekki langt yfir skammt, Moggamenn!

Svarthöfði skrifar: Leitið ekki langt yfir skammt, Moggamenn!
EyjanFastir pennar
18.01.2025

Svarthöfði skrifar: Verður offitan Trump ofurefli?

Svarthöfði skrifar: Verður offitan Trump ofurefli?
EyjanFastir pennar
16.01.2025

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
EyjanFastir pennar
15.01.2025

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?