Bræðurnir heimsfrægu Cameron og Tyler Winklevoss eru nú komnir með nýtt verkefni og það verkefni er eitthvað sem hefur komið mjög mörgum á óvart.
Um er að ræða bræður sem tóku þátt í því að gera samskiptamiðilinn Facebook að því sem hann er í dag og eru þeir forríkir vegna þess og annarra verkefna.
Cameron og Tyler hafa verið með puttann í ýmsum hlutum undanfarin ár en eru nú að reyna fyrir sér í fótbolta í fyrsta sinn.
Samkvæmt fregnum frá Bandaríkjunum hafa þessir tveir umdeildu menn fjárfest í félagi sem ber nafnið Real Bedford og er í áttundu efstu deild Englands.
Þeir eru metnir á 2,4 milljarða bandaríkjadollara sem er engin smá upphæð en þeir fjárfesta 3,5 milljónir punda í þessu smáliði á Englandi sem gerir um 618 milljónir króna.
Kaupin hafa lengi legið í loftinu en skrifað var undir alla pappíra fyrir helgi og er ljóst að bræðurnir eru nýir eigendur Real Bedford.
Peningar tvíburana munu hjálpa Bedford gríðarlega og þá sérstaklega þegar kemur að því að endurbyggja æfingasvæði félagsins og að þróa yngri leikmenn.