Karen Kjartansdóttir almannatengill og samfélagsrýnir veltir upp þeirri spurningu á samfélagsmiðlum sínum hvort að víðsýni Íslendinga, sérstaklega gagnvart fólki sem flyst hingað frá öðrum löndum, hafi minnkað síðan á tíunda áratug síðustu aldar. Segir Karen að þrír menn frá Ólafsvík sem eiga ættir sínar að rekja til Bosníu og Hersegóvínu hafi vakið hana til umhugsunar um þetta.
Karen segir svo frá að hún hafi verið að glugga í héraðsfréttablaðið Jökul en þar er einblínt á fréttir frá Ólafsvík, Grundarfirði, Hellissandi og Rifi. Minnist Karen sérstaklega á forsíðufrétt nýjasta tölublaðsins þar sem kemur fram kemur að Asmer Begic, leikmaður fótboltaliðs félagsins Víkings í Ólafsvík, og Allan Purisevic, sem alinn er upp í bænum, hafi verið verið valdir í æfingahópa U-19 ára landsliðs karla í fótbolta. Minnt er á í fréttinni að sá síðarnefndi sé sonur Ejub Purisevic sem þjálfaði meistaraflokk karla hjá Víkingi í Ólafsvík í fjölda ára.
Karen segist ekki vita mikið um piltana tvo og Ejub en nöfn þeirra gefi ákveðnar vísbendingar:
„Ég veit lítið um þessa pilta annað en íþróttaafrek þeirra og tengsl við Snæfellsnes, en fannst notalegt að sjá nöfn þeirra framan á héraðsblaðinu. Ég veit ekki með vissu um bakgrunn þeirra, en nöfn þeirra gefa vísbendingu um uppruna frá Bosníu og Hersegóvínu, sem var hluti af Ottómanaveldinu. Á þeim tíma tóku margir Bosníumenn upp íslam, og eru Bosníumúslímar (Bosniaks) fjölmennasti hópurinn í landinu.“
Karen gerir síðan ítarlega grein fyrir nöfnum Asmer, Allan og Ejub og það þau gefi vísbendingar um að allir séu þeir múslimar. Í athugasemdum við færslu Karenar á Facebook staðfesta nokkrir Ólafsvíkingar að þremenningarnir séu allir vissulega ættaðir frá Bosníu og Hersegóvínu en tengsl þeirra við bæinn og Snæfellsnesið séu afar sterk og eru þeir allir lofaðir í hástert og minnt er jafnframt á að Ejub hafi fyrst komið til Ólafsvíkur á 10. áratug síðustu aldar.
Karen rifjar einmitt upp hvað varð til þess að nokkuð var um að fólk flyttist hingað til lands frá Bosníu og öðrum hlutum gömlu Júgóslavíu á tíunda áratug síðustu aldar:
„Íslendingar nutu þeirrar gæfu að fá til sín fjölda fólks frá fyrrum Júgóslavíu þegar það flúði hrylling borgarastyrjaldarinnar, sem náði sínum allra skelfilegustu hæðum í Bosníu – sérstaklega gagnvart Bosníumúslimum. Við þekkjum flest einhvern úr þessum hópi og afkomendur þeirra, en aldrei hefur mér dottið í hug að spyrja hvort viðkomandi sé rétttrúnaðarkristinn, kaþólskur eða múslimi. Mér er heldur ekki kunnugt um að nokkrum hafi hugkvæmst að gera slíkt á tíunda áratugnum.“
Karen segist efins um að jafnvel yrði tekið á móti þessum hópi í dag:
„Í dag væri þó allt annað uppi á teningnum. Og eðlilegt þætti að Bosníakar (bosnískir múslimar) þyrftu að þola mun óvægnari umfjöllun í sumum fjölmiðlum, að ég tali nú ekki um hinn vammlausa, en ofstækisfulla her í kommentakerfunum.“
Hún spyr því að lokum hvort að það geti verið að víðsýni Íslendinga hafi minnkað á síðustu 30 árum:
„Vorum við ekki aðeins gáfaðri og víðsýnni á tíunda áratugnum?“