Í frétt RÚV segir að kennarar um allt land hafi margir hverjir gengið út af vinnustöðum sínum. Þannig hafi tilkynning verið send á foreldra barna í Hörðuvallaskóla, klukkan 12:05, þess efnis að börn væru á leið heim.
DV hefur undir höndum tölvupóst frá Skarðshlíðarskóla í Hafnarfirði sem barst rétt fyrir klukkan 13. Þar segir:
„Nú í framhaldi af því að samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hafnaði innanhússtillögu ríkissáttasemjara frá því í gær hafa kennarar gengið út úr mörgum skólum landsins. Það á einnig við um kennara í Skarðshlíðarskóla. Nemendur í 5.-10. bekk hafa verið sendir heim. Forráðamenn nemenda í 1.-4. bekk eru beðnir um að sækja börnin sín sem fyrst. Tekið skal fram að nemendur eru í umsjá starfsfólks og í góðum höndum.“
RÚV ræddi einnig við Magnús Þór Jónsson, formann Kennarasambands Íslands, í hádegisfréttum sínum og var hann ómyrkur í máli.
„Það er með ólíkindum það sem sambandið leggur fram sem ástæðu. Þau höfðu samþykkt forsenduákvæðið í janúar og það hefur greinilega breyst í febrúar,“ sagði Magnús sem gagnrýndi einnig ríkið fyrir að svara ekki ríkissáttasemjara.
Ríkið semur við framhaldsskóla og hófst verkfall í fimm framhaldsskólum í morgun.
„Ríkið ákvað í ljósi þess að sambandið sagði nei, sem ég held reyndar að hafi aldrei gerst í sögunni áður, að stjórn sambandsins neiti kjarasamningstillögu, þá telur ríkið sig ekki þurfa að svara sáttasemjara. Það finnast okkur sérkennileg skilaboð út í fimm framhaldsskóla sem fóru í verkfall í dag, að yfirmenn framhaldsskólans láti ekki svo lítið að svara þessari tillögu. Það finnst mér með ólíkindum,“ sagði hann við RÚV.
Í frétt Vísis nú í hádeginu kom fram að kennarar ætli að fjölmenna á borgarstjórnarfund klukkan 16:30 en þar verða einmitt greidd atkvæði um nýjan meirihluta.