fbpx
Laugardagur 22.febrúar 2025
Fréttir

Fjörugar athugasemdir eftir kvörtun miðborgarbúa vegna hávaða, hrópa og úrgangslosunar – „Costco er bæði með partýbleyjur og poka“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 21. febrúar 2025 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íbúi í miðborginni lýsti yfir óánægju sinni með ónæði þar allan sólarhringinn. Ferðamenn valdi hávaða með banki í hús, og geri, auk Íslendinga, þarfir sínar á lóðum, sérstaklega um helgar, auk þess að vera með fylleríshávaða. Síðan taki ekki betra við um miðjar nætur þegar hreinsitækin og ferðamenn með töskur fari á stjá. Það besta, sem íbúinn birtir mynd af, er hlaupahópurinn sem notar götuna til æfinga eldsnemma að morgni með tilheyrandi hvatningarhrópum.

„Það að búa í miðborginni fylgir ónæði nánast allan sólarhringinn. Ferðamenn banka í bárujárnið eða renna hendinni eftir bárunum til þess að mynda brúm brúm hljóðið. Á nóttunni um helgar fara menn heim til sín misdrukknir og mishljóðlátir eftir þessum götum okkar og stundum þarf að losa sig við eitt og annað sem leiðir síðan til ferðar inn í garða okkar þar sem menn skilja ýmislegt eftir.  Jú þetta eru bæði heimamenn og oft ferðamenn í þessum litlu kamperum.  Stundum finnur maður klósettpappír í beðunum. Svo upp úr 4 þarf svo að renna hreinsitækjum eftir gangstéttum og þar eftir fara svo ferðamennirnir að rúlla ferðatöskunum eftir gangstéttunum með sínum hávaða,“ byrjar íbúinn færslu sína. 

Hann segir einnig ekki mögulegt að sofa út. „En þetta endar ekki alltaf þannig að maður geti sofið því upp úr 6 á morgnana skokka morgunhanarnir upp og niður Frakkastíginn með sínum hvattningaöskrum um að koma svo!“

Íbúinn bendir á að hann svefnherbergi hans í timburhúsi snúi út að götunni þannig að götuhljóð berast auðveldlega inn. „Þess utan þá vinn ég oft langt fram á nótt við norðurljósaleiðsögn og kem stundum seint heim sem þýðir að mig langar að sofa aðeins lengur en til 6! Mér finnst í raun að sumt fólk átti sig ekki á því að miðborgin er ekki bara skemmtana- og athafnasvæði heldur íbúabyggð með eldri húsum þar sem eru litlar hljóðeinangranir.“

Íbúinn biðlar til þeirra sem lesa að ef einhver þekki til hlaupahópsins þá „megi koma þeim góðfúslegu tilmælum til þeirra að það eru fullt af úivistarstöðum í Reykjavík sem henta vel til þessarar iðkunar það er að þjálfa þol s.s. Öskjuhlíð, Elliðaárdalurinn og Grafarholt.  Ég reikna með því að þessi hópur hafi ekki áttað sig á því hvað þau eru að gera.“

Hlaupahópurinn umræddi eldsnemma að morgni
Mynd: Facebook

Samkennd og athlægi í bland

Fjölmargir taka undir færsluna, margir íbúar og fyrrum íbúar miðbæjarins kannast við ónæðið og sýna viðkomandi fullan skilning og samúð, líkt og aðrir sem kannast þó ekki við ónæðið. 

Annar íbúi kannast vel við umrætt ónæði og fleira: „Við erum klárlega nágrannar því ég kannast við þetta allt. Ég hef ekki heyrt í hlaupahópnum undanfarið og er vonandi búin að ná að blokka þau en bárujárns renneríið þekki ég vel og tösku hljóðið og hljóðið frá bakaraofninum í brauð og co.“

„Bý við Laugaveginn, vel einangrað og náttúrulega ys og þys eins og við er að búast. Þessi hljóð sem maður býst við og svo eru það hin …. öskur, mest Íslendingar sloppnir úr þögn úthverfanna og garga eins og þeir eigi lifið að leysa og finnst þeir sjálfir frábærir. Ég heyri í ykkur. Ég finn til með þér vegna hvatningaópanna. Þetta með mannasiðina…. Svo eru það þessi sem eru alltaf að míga og skíta í öll horn ( í beinni útsendingu ). Costco er bæði með partibleyjur og poka.“

Segir það kaldhæðni að maður sem hefur lifibrauð af ferðamönnum kvarti undan hávaða þeirra

Jón Bjarni Steinsson, sem lengi hefur þjónustan heimamenn sem ferðamenn, á barnum Dillon á Laugavegi spyr íbúann: „Þú semsagt vinnur oft fram á nótt við að leiðbeina ferðamönnum og ert á sama tíma ósáttur við ónæði af ferðamönnum þegar þú kemur heim? Kaldhæðnin snýr meira að því að hafa atvinnu af ferðamönnum og kvarta á sama tíma yfir ónæði þeim tengdum þar sem þeir eru fyrirferðamestir – miðsvæðis í borgum og bæjum.“

Íbúinn svarar á móti hvort sé ekki munur á „því hvort þú kemur fullur heim og læðist eða hvort þú komir syngjandi heim, skellir hurðum svona bara til að láta þá sem eru í nágrenni við þig vita að þú ert kominn heim? Sé lítinn mun á svona andfélagslegu athæfi og því að þurfa að vekja alla upp vegna þess að menn þurfa að láta þá sem eru nágrenninu vita að þau séu að hlaupa! Þar að auki má benda á það að hlaupahljóð vekja upp flóttatilfinningu og er ekki gott að reyna að sofna með hlaupahljóð í eyrum.“

Spyr íbúinn „eru semsagt hlaupararnir útlendingar? Eru þetta ekki bara ókurteisir Íslendingar sem vita ekki betur? Og spyr Jón Bjarna: semsagt þú lítur sem svo á að mannasiðir gildi ekki í 101?“

Grínið haft með

Tónlistarmaðurinn Flosi Þorgeirsson er í Ham og segir í góðfúslegu gríni: „Það virkar ágætlega að hlaupa út með haglarann og öskra eitthvað á hinu ylhýra. Ferðamenn láta sig þá fljótt hverfa. Þarf ekki einu sinni að vera hlaðin.“ Vésteinn Valgarðsson forstöðumaður lífsskoðunarfélagsins Díamat tekur undir hugmyndina: „Trikkið er að gera þá svo skelkaða að ferðamenn framtíðarinnar frétti það og geti þá líka passað sig.“

Kona ein kemur með aðra sanna skemmtisögu: „Ég var einu sinni vitni að því að ung kona (úr úthverfi) varð alveg steinhissa á að einhver byggi í miðbænum. Þetta var þegar ég var bréfberi og konan var fengin til að keyra okkur í hverfin. Það kom þá í ljós að hún rataði bara á skemmtistaðina og við urðum eins og talandi götukort.“

Sendir hlaupahópnum skilaboð um að hætta hvatningarhrópum

Íbúi í sömu götu kannast við hlaupahópinn og segist vera búinn að senda erindi til hans fyrir hönd færsluhafa. 

„Þetta er November Project sem þú ert að tala um sem hlaupa klukkan 6.15 á föstudögum eingöngu. Ég er að skrifa þeim og biðja um að hvatningarópum verði hætt. Hópurinn flytur sig yfir í Öskjuhlíð á vorin. Skil vel allt þetta sem þú talar um (þar sem ég bý eiginlega á sama stað og þú) en það breytti lífi mínu að færa svefnherbergið garðmegin. Það og að litlu ferðamannarúturnar hættu að stoppa allan sólarhringinn við götuna. Svo mæli ég með eyrnatöppum en stundum virka þeir ekki alltaf.“

Íbúinn svarar því til að nægir staðir séu til hlaupanna: „En það eru ýmsir staðir til þar sem menn eru ekki að skapa ónæði og reyndar er þetta athæfi bæði ólöglegt og í bága við lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar því miður ásamt því að vera andfélagslegt. Þó svo að þau hætti hrópunum þá er þarna líka hlaupaþrammið sem gerir manni erfitt að sofna aftur vegna þess að við erum hópdýr og ef við heyrum hlaupahljóð þá kveikir það á flóttaviðbragðinu án þess að maður vilji það.“

Ef íbúar miðbæjarins þola ekki ónæði eiga þeir að flytja

Öðrum finnst þetta óþarfa tuð og finnst eðlilegt að íbúar miðborgarinnar eigi að þola ónæði, svefnleysi og hland og mannaskít við eignir sínar. 

„Allt öðrum um að kenna nema þér. Skemmtilegur kall,“ skrifar karlmaður.

„Og koma svo, einn hring í viðbót áður en ferðamennirnir koma,“ skrifar annar.

„Ertu nýr hér í 101RVK? Auðvitað getur verið ónæði þegar þú býrð í miðbænum. Þetta á við um allar borgir. Eitthvað sem langflest okkar sem búum hér sættum okkur við.“

„Þú þarft sennilega að flytja þig eða fá þér eyrnatappa. Held að þetta ónæði sé komið til að vera,“ segir kona í Þingholtum og segir ónæðið líklega komið til að vera.

Kona ein bendir á íbúinn þurfi líklega bara að flytja og segist þekkja ónæðið vel eftir að hafa búið áður 20 ár í miðbænum: „Þeir sem ekki hafa smekk fyrir ónæðinu ættu kannski bara að flytja sig um set.“ Íbúinn sem sendi hlaupahópnum skilaboð svarar henni og segir „Á ekki fólkið við grænu skemmuna í Breiðholti bara að flytja þar sem þeim líkar ekki útsýnið? Segi nú bara svona…Það flutti enginn í miðbæinn til að verða fyrir endalausu ónæði og margt er hægt að leysa til að fólk geti búið í sátt. Ef fólk getur ekki sýnt nágranna sínum skilning hvernig er hægt að sýna hann heiminum?“

Gera þarf ráðstafanir til að geta sofið um nætur

Karlmaður bendir íbúanum á að þeir sem sofa vilji á öðrum tíma en um nætur þurfi að gera ráðstafanir: „Þeir sem þurfa að sofa á öðrum tíma en meginþorri borgarbúa gera viðeigandi ráðstafanir. Borgin er ekki að fara að breytast fyrir þig – fáðu þér eyrnatappa og svefngrímu yfir augun.“

Íbúinn sem sendi línu á hlaupahópinn svarar honum og bendir á að tímasetningin sem hann talar um að geta ekki sofið á sé innan hvíldartíma samkvæmt lögreglureglugerð. „Þetta er frekar leiðinlegt viðmót samt. Klukkan 6 er innan hvíldartíma m.v. lögreglureglugerð. Það má t.d ekki hefja sorphirðu í íbúðahverfi fyrr en kl. 7 að morgni. Það á líka við um miðbæinn fyrir utan Laugaveg t.d. Erum við ekki í sama liði íbúarnir hér eða ætlum við alltaf að láta eins og allt sé í box̌i bara af því að póstnúmerið er 101?“

Eina leiðin til að fá svefnfrið? gríma og eyrnatappar

Íbúar elska að búa í sátt við venjulegan hávaða – Hús þeirra það sem ferðamenn sækja að skoða

Leikkonan Edda Björgvinsdóttir segir íbúa miðborgarinnar elska venjulegan hávaða en spyr fólki finnst eðlilegt að þeir íbúar þurfi að láta meira yfir sig ganga en aðrir borgarbúar: 

„Ég las allar athugasemdirnar og vissi að það myndi heyrast tuð eins og „þetta fylgir bara því að búa í miðbænum!“ eða „viltu ekki bara flytja í úthverfi?!“ Málið er að það líðst hér í borg að brjóta allar hávaða reglur. Hreinsitæku vaða um miðbæinn um miðjar nætur og drukknir Íslendingar mega óáreittir þramma öskrandi af skemmtistöðum til kl.6:00 á morgnana! Eðlilegur miðborgarhávaði er nefnilega ekki það sem verið er að kvarta yfir! Þeir sem búa í miðborginni elska að búa þar í sátt við allan „venjulegan“ hávaða sem fylgir því að búa miðsvæðis.“

Aðstoðarskólastjóri Hlíðaskóla, Þorgerður L. Diðriksdóttir, tekur í sama streng og þakkar fyrir færsluna. „Það er hreint út sagt ótrúlegt að þeir sem lesa færsluna og búa í miðbænum séu að hnýta í frásögn af þínum veruleika og margra annara sem búa á timburhúsareit í húsum sem byggð voru í kringum 1900. Vinnan okkar og natni við þessu hús eru auðvita ein af ástæðum þess að fólk gengur þessarar götur. Ég sé ekki að þú sért að kvarta yfir umferð fólks eða myndatökur inn um glugga heldur frekar þættir sem „allir“ ættu að geta verið sammála um að vera ekki að gala og góla eftir kl 22 og til kl 8:00.“

Kona bendir á að við mættum læra mannasiði af Dönum hvað djammið varðar: „Borgin mætti læra Kaupmannahöfn en þar er í gangi átak sem kallast: FEST MED RESPEKT !“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta fá farþegar Delta í bætur eftir flugslysið

Þetta fá farþegar Delta í bætur eftir flugslysið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Faðir stúlku í Breiðholtsskóla óttast að stórslys sé í uppsiglingu – Mættu með öxi heim til nemanda

Faðir stúlku í Breiðholtsskóla óttast að stórslys sé í uppsiglingu – Mættu með öxi heim til nemanda