fbpx
Laugardagur 22.febrúar 2025
Fréttir

Hafði ekki erindi sem erfiði eftir að mistókst að vinna bug á fýlusvipnum

Ritstjórn DV
Föstudaginn 21. febrúar 2025 14:30

Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd: Deepai.org

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur úrskurðað ónefndum aðila sem rekur snyrtistofu í hag vegna ágreinings aðilans við konu sem leitaði eftir þjónustu. Átti þjónustan meðal annars að lúta að því að vinna bug á því sem í úrskurðinum er kallað „fýlusvipur“ í andliti konunnar. Virðist það ekki hafa tekist sem skyldi en konuna og rekstraraðilann greindi á um fyrir nákvæmlega hvað hún greiddi og hversu vel búast hafi mátt við að það hafi átt að geta tekist.

Konan krafðist fullrar endurgreiðslu í kæru sinni til nefndarinnar.

Konan hafði samband við rekstraraðilann síðastliðið vor. Hún sendi skjáskot af mynd sem var birt á samfélagsmiðlum rekstraraðilans og óskaði eftir upplýsingum um hvaða meðferð skilaði sambærilegum árangri og sást á myndinni. Upplýsingarnar voru veittar og í kjölfar samskipta þeirra á milli fékk konan andlitsmeðferð á snyrtistofunni. Fyrir það greiddi konan 135.000 krónur.

Í kæru konunnar kom fram að þjónustan hefði ekki verið í samræmi við hennar óskir. Hún hefði óskað eftir fyllingum í neflínur, munnvik og smávegis í varir og að rekstraraðilinn hafi tjáð henni, eftir skoðun á andliti, að hægt væri að gera það fyrir 130.000 krónur. Konan sagðist ekki hafa séð mun á andliti sínu að meðferð lokinni og taldi því þjónustuna ekki hafa borið árangur. Hún hafi gefið aðilanum tækifæri til að bæta úr þjónustunni en því hafi verið hafnað sem og kröfum hennar um endurgreiðslu.

Hafi viljað mun dýrari meðferð en samt árangur náðst

Í andsvörum sínum sagði rekstraraðilinn að konan hefði óskað eftir meðferð sem kallast „Full face Andlitsfyllingu 6,6 millilítra“ en fullt verð fyrir hana sé 559.000 krónur. Konan hafi ekki fallist á að greiða 409.000 krónur fyrir þá meðferð eins og henni hafi verið boðið. Henni hafi því verið boðið að byrja á minni fyllingu í húð til að vinna á fýlusvip á andliti sem hún hafi samþykkt. Hún hafi samþykkt að greiða fyrir 2 millilítra fyllingu en þegar meðferð hófst hafi hún óskað eftir fyllingu í varir og því hafi farið lítið í fýlusvipinn. Varnaraðili hafi bætt við fituleysingu og BTX hrukkuslökun til að hjálpa til við að draga úr fýlusvipnum.

Vildi aðilinn meina að árangur hafi náðst þrátt fyrir það litla efni sem unnið hafi verið með í meðferðinni og vísaði í myndir því til stuðnings.

Konan fullyrti að fullyrðingar rekstraraðilans, um að meðferðin hafi verið liður eða byrjun á stærri meðferð, væru rangar. Hún hafi viljað laga neflínur, varir og fýlusvip við munnvikin en að sú meðferð sem hún hafi greitt fyrir hafi ekki borið árangur að öðru leyti en gefa smá fyllingu í varir.

Hafi spurt um annað en hún keypti

Í niðurstöðu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa er vitnað í samskipti málsaðila. Þegar konan hafi upphaflega spurt út í þær myndir sem hún sá á samfélagsmiðlum rekstraraðilans hafi svarið verið að á myndunum mætti sjá árangur af „Full face 9,9 millilítra“ meðferð.

Konan hafi þá svarað því til að hún væri mest að spá í að laga línurnar frá nefi, fá smá varastækkun og laga fýlusvip og hökuna.

Svarið við því hafi verið að 3,3 millilítrar af fylliefni dygðu mögulega til þess. Í kjölfarið hafi konan farið á snyrtistofuna. Nefndin segir ljóst að endanleg ákvörðun um meðferðina hafi verið tekin á stofunni og fyrir liggi því ekki skrifleg gögn um hana. Þegar konan hafi í kjölfarið kvartað yfir litlum árangri af meðferðinni hafi hún fengið svar um að 3,3 millilítrar af fylliefni hafi verið notaðir, auk fituleysingar og BTX hrukkuslökunar. Konunni hafi verið jafn framt bent á að frekari meðferðar væri þörf til að vinna bug á fýlusvipnum við munnvikin.

Nefndin segir þessi samskipti sýna fram á að konan hafi greitt fyrir og fengið aðra meðferð en hún hafi leitað upplýsinga um í upphafi. Myndirnar sem hún byggi kæru sína á séu eftir meðferð með meira fylliefni en hún hafi greitt fyrir. Því sé eðlilegt að árangurinn af hennar meðferð sé ekki sá sami og á myndunum.

Kröfu konunnar um endurgreiðslu var því hafnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta fá farþegar Delta í bætur eftir flugslysið

Þetta fá farþegar Delta í bætur eftir flugslysið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Faðir stúlku í Breiðholtsskóla óttast að stórslys sé í uppsiglingu – Mættu með öxi heim til nemanda

Faðir stúlku í Breiðholtsskóla óttast að stórslys sé í uppsiglingu – Mættu með öxi heim til nemanda