Lét hann að því liggja að Zelensky ræki „svikamyllu sem nærðist á líkum fallinna hermanna“. Endurómaði hann harða gagnrýni Trumps á Zelensky í vikunni en Bandaríkjaforseti virðist í auknum mæli vera farinn að halla sér upp að Vladimír Pútín og hefur tekið undir málstað Rússa í stríðinu við Úkraínu.
Musk sagði á samfélagsmiðli sínum, X, að Zelensky væri ragur til að halda kosningar. „Því hann er fyrirlitinn af úkraínskum almenningi, sem er ástæða þess að hann neitar að halda kosningar. Ég skora á Zelensky að halda kosningar og sýna fram á að ég hafi rangt fyrir mér. Hann gerir það ekki,“ sagði Musk.
Ekki er vitað hvað Musk hefur fyrir sér í þessum efnum því samkvæmt nýjustu könnuninni sem mældi traust til Úkraínuforseta sögðust 57% aðspurðra treysta honum. Þá eru herlög í gildi í Úkraínu vegna innrásar Rússa og af þeim sökum hafa kosningar ekki verið haldnar.
Musk var í gær viðstaddur árlegan fund American Conservative Union (ACU) og vakti hann talsverða athygli á fundinum. Fékk hann keðjusög að gjöf frá Javier Milei, forsætisráðherra Argentínu, og virtist mjög ánægður með gjöfina eins og meðfylgjandi myndband ber með sér.