Dagskipunin þessa dagana á Morgunblaðinu og í þingflokki Sjálfstæðisflokksins er einföld: Það á að hamast á Ingu Sæland og flokki hennar með góðu eða illu. Skiptir engu máli þó búið sé að svara ávirðingum. Samt skal halda áfram. Flokkur fólksins er veikasti hlekkurinn í ríkisstjórninni og ef við djöflumst bara nógu mikið, þá lætur eitthvað undan.
Í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær lét Inga Sæland ekki slá sig út af laginu og sagði hreinlega vegna linnulausar árása á hana frá Morgunblaðinu að hrútspungafýlan læki beinlínis af þeim í Hádegismóunum. Þingmenn reyndu svo að fylgja áróðri blaðsins eftir, bæði Bergþór Ólason og ekki síst Hildur Sverrisdóttir sem rætt hefur verið um að sé lægsti samnefnari þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
Orðið á götunni er að Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og Morgunblaðið geti engum kennt um hvernig komið er nema sjálfum sér. Flokkarnir eru enn að reyna að venjast því að vera búnir að missa völdin í landsstjórninni eftir sjö ára samleið með Vinstri grænum sem nú eru úr sögunni. Sjálfstæðisflokkurinn hafði setið samfleytt í ríkisstjórn í ellefu ár þegar hann hrökklaðist frá völdum og stendur nú uppi valdalaus, formannslaus og varaformannslaus. Flokkurinn fær þó nýja embættismenn eftir rúma viku – en ekki sér fyrir endann á valdaleysinu.
Hörð formannsbarátta fer nú fram innan Sjálfstæðisflokksins og virðist flokkurinn loga stafnanna á milli. Ljóst er að hvernig sem fer þá muni sá hópur sem tapar fara á fýlu og eiga erfitt með að sætta sig við örlög sín, rétt eins og sjálfur flokkurinn sem á mjög erfitt með að horfast í augu við að hafa misst sæti sín í ríkisstjórninni. Formannsframbjóðendurnir tveir eru gjörólíkir og koma hvor úr sinni áttinni. Guðrún Hafsteinsdóttir kemur hokin af reynslu úr atvinnulífinu, bæði sem eigandi fyrirtækis, iðnrekandi og forystumaður í samtökum atvinnulífsins og lífeyrissjóðanna. Hún er miðaldra fjölskyldumanneskja og móðir. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er ung og leggur mikla áherslu á að flokkurinn þurfi á kynslóðaskiptum að halda. Það eru reyndar kaldar kveðjur til fráfarandi formanns, Bjarna Benediktssonar, sem er ennþá ungur maður. Áslaug Arna tók sæti á Alþingi beint eftir að hafa lokið háskólanámi og hefur enga reynslu af atvinnulífinu nema sumarstörf. Hún höfðar til yngra fólks í formannsbaráttu sinni en Guðrún til ráðsettra sjálfstæðismanna, fjölskyldufólks, miðaldra og eldri flokksmanna.
Orðið á götunni er að ekkert lát ætli að verða á eyðimerkurgöngu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Fyrr í þessum mánuði hélt oddviti flokksins að flokkurinn væri að mynda nýjan meirihluta með Framsókn sem er búin klúðra stöðu sinni í borginni með einstökum hætti. Einar Þorsteinsson er algerlega rúin trausti og Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, fer fyrir valdalausum og klofum hópi. Hún og Einar þurfa nú að kyngja niðurlægingunni því nýr meirihluti tekur við á morgun undir forystu Samfylkingarinnar. Borgarstjóri verður Heiða Björk Hilmarsdóttir. Nýr þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Jón Ziemsen, gekk svo langt í svekkelsi sínu að hann lét þess getið að hann myndi setja hús fjölskyldu sinnar í sölu ef hún yrði borgarstjóri! Aldeilis gott fyrir flokkinn að vera búinn að koma sér upp svona miklum stjórnmálasnillingi í stað þeirra sem duttu út við síðustu kosningar. Þessi yfirlýsing Jóns Ziemsen var ekki sögð í gríni þannig að hann hefur feril sinn sem þingmaður með því að gera hreinlega upp á bak. Hann selur þá híbýli sín í Reykjavík og flytur vonandi í Garðabæ! Þar ætti hann að geta sleikt sárin.
Þingmenn og ráðherrar stjórnarinnar brosa góðlátlega vegna vandræðagangs stjórnarandstöðunnar. Þeir láta brölt þeirra og hrútspunganna á Morgunblaðinu ekki trufla sig. Framsókn tapaði 8 þingmönnum í síðustu kosningum og er kominn niður í 5 þingmenn, valdalaus örflokkur með formann sem allir vilja losna við til að geta hafið endurreisnarstarfið. Allir nema Sigurður Ingi Jóhannsson sem ætlar bráðum að heimsækja flokksmenn víða um land og fá þá til að vorkenna sér. Bjarni Benediktsson gerði hið eina rétta. Hann viðurkenndi tap flokksins eins og maður, vék fyrir nýjum formanni og hvarf af Alþingi eftir meira en 20 ára setu þar. Framsókn gæti lært sitthvað af honum.
Orðið á götunni er að kjósendur muni taka eftir því ef stjórnarandstaðan ætlar einungis að halda uppi ómerkilegum árásum á Ingu Sæland og beina athyglinni að aukaatriðum. Von er að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn vilji sem minnst tala um sjö ára halla sinn á ríkissjóði, skelfilegt ástand vegakerfisins eftir setu formanns Framsóknar á stóli samgönguráðherra í 7 ár, áskoranir í menntakerfinu, veikleika löggæslunnar og margvíslegan vanda heilbrigðiskerfisins. Það er arfleifð fyrri ríkisstjórnar sem ný ríkisstjórn fær í fangið.
Það er auðvelt að skilja Sjálfstæðismenn og Framsóknarfólk sem vill alls ekki tala um stóru málin.