Lögreglan í Livingston County skýrði frá þessu á Facebook og skrifaði: „Loretta, sem býr á Avon dvalarheimilinu, var spurð hvað hún vildi í afmælisgjöf og svarið var að hana langaði að sjá hvernig fangelsið okkar lítur út að innan því hún hafði aldrei komið í fangelsi. Loretta skemmti sér mjög vel í skoðunarferð um fangelsið okkar og við erum svo ánægð yfir að hafa getað látið ósk hennar rætast.“
Hurlbut Care Communities, sem annast rekstur dvalarheimilisins þar sem Loretta býr, segir að Loretta hafi notið þess að fá köku, að láta taka fingraför sín og ljósmynd af sér. Einnig hafi skoðunarferðin um fangelsið fallið vel í kramið hjá henni sem og að vera lokuð inni í fangaklefa. Einnig hafi hún hitt marga lögreglumenn og nýjasta lögregluhundinn.
Loretta fór í þessa óvenjulegu heimsókn tveimur dögum eftir 104 ára afmælið sitt.