85 ára gamall karlmaður slasaðist í fríi á Spáni fyrir tveimur vikum og fór í aðgerð. Tvö uppkomin börn hans sem fóru út til aðstoða föður sinn eru afar ósátt við sein og léleg svör tryggingafélagsins hér heima. Faðir þeirra er þó loksins á leið heim á morgun.
„Sem betur fer er loksins búið að fá flug fyrir hann heim til Íslands. Það hafðist eftir að var búið að senda lögfræðing í tryggingarnar,“ segir Ólafur F. Jónsson sem staddur er hjá föður sínum, Jóni Vikari Jónssyni, á sjúkrahúsinu á Spáni, ásamt systur sinni Karitas.
Aðspurður segir Ólafur að faðir hans verði fluttur með sjúkrabíl á flugvöllinn, en um hefðbundið farþegaflug er að ræða, ekki sjúkraflugvél. Hjúkrunarfræðingur mun fylgja föður hans heim.
„Hún kemur frá Svíþjóð, eins skrýtið og það nú er. Systir mín, Karitas, sem er hérna hjá honum er hjúkrunarfræðingur og bauðst til að fara með honum heim, en það var ekki samþykkt. Við gátum ekki farið heim á undan honum af því hann er ósjálfbjarga bæði á spænsku og ensku og þarf töluvert mikla aðstoð. Systir mín er allan sólarhringinn hjá honum og ég svona frá átta á morgnana til átta á kvöldin.“
Jón Vikar fór ásamt vinkonu til Spánar fyrir rúmum mánuði, og stóð til að þau myndu dvelja þar þangað til í maí í íbúð sem hún á í La Marina, mitt á milli Torrevieja og Alicante. Margir íslendingar eiga íbúðir og hús þar.
„Þau voru bara að labba út í búð þegar hann dettur. Hann missti bara jafnvægið og datt. Hann er þrjóskupúki og dröslar sér heim. Daginn eftir er hann fluttur með sjúkrabíl á spítala eftir að vera búinn að kveljast í sólarhring. Það er ekki vitað af hverju hann datt, hann varð bara allt í einu valtur. Og ekki er drykkju um að kenna af því pabbi drekkur ekki og hefur aldrei gert,“ segir Ólafur.
Í ljós kom að Jón hafði brotnað á mjaðmagrindarlið og brotið hægri mjaðmakúluna, þegar hann datt fimmtudaginn 6. febrúar. Hann fór á spítala degi seinna og í aðgerð á sunnudeginum 9. febrúar.
Ólafur segir aðspurður að það hafi verið eintómir tungumálaörðugleikar á spítalanum, þar sem faðir hans tali enga spænsku eða ensku. „Hann var nánast samskiptalaus þar til systir mín kom frá Danmörku til hans, daginn eftir að hann fer á spítala er hún komin til hans,“ segir Ólafur og er fullviss um að faðir hans sé ekki eini Íslendingurinn sem geti illa bjargað sér á tungumáli á erlendri grundu. Ólafur kom svo út daginn sem faðir hans fór í aðgerðina.
„Við erum ekkert ósátt með aðgerðahraðann á honum, heldur tryggingarnar. Hann er með Gullkort Visa frá Arionbanka og á að vera tryggður með ferðatryggingu hjá Verði. Það er SOS sem selur Verði þessar tryggingar, alþjóðlegt dæmi og það er þar sem vandræðin byrja. Að fá svör í sambandi við flutninga og annað, það var alltaf sagt: „Á morgun, á morgun“ og þeir vildu aldrei senda okkur neitt skriflegt með tölvupósti. Þeir vildu bara hringja, þá er náttúrlega ekki hægt að hengja þá á neinu. Þeir byrja á að tala um að flutningur eigi að vera fimmtudaginn í síðustu viku. Svo frestast þetta alltaf og þegar við hringjum aftur, þá er ekkert búið að gera, ekki búið að skipuleggja neitt eins og þeir segjast alltaf ætla að gera, það var aldrei neitt á bak við það, nema orðin sem þeir sögðu þegar við hringdum,“ segir Ólafur.
„Það er þessi lygi alltaf, þetta er náttúrlega galið. Þetta er að gerast á morgun og svo er ekki neitt og ekki hægt að fá neitt skriflegt.“
Ólafur segir að sem betur fer búi systir hans í Danmörku og tali dönsku, hann segir að hann viti ekki hvernig þau hefðu komist í gegnum samskiptin við SOS öðruvísi. Aðspurður um hvort þau hafi eitthvað haft samband við ráðuneytið hér heima og óskað eftir aðstoð segir Ólafur að það hafi verið rætt og verið næst á dagskrá, systkinin og faðir þeirra hafi þó alltaf trúað að nú væru tryggingarnar að fara að standa við sitt. „Það var ekki ætlunin að gera allt vitlaust, bara að fá svör og koma kallinum heim.“
„Þegar við fórum að pressa á SOS var ekkert búið að gera, en það er sennilega ástæða fyrir því. Það var skólafrí þessa viku í Danmörku og allir einhvers staðar annars staðar en heima hjá sér og það var víst töluvert um slys á þeim. En þeir komust allir heim. Það er eins og pabbi hafi verið settur á hold á meðan, það virkar þannig þó ég ætli ekki að fullyrða það, miðað við hvernig fréttirnar voru þarna í Danmörku á sama tíma.“
Ólafur segir hvern hafa bent á annan, SOS bent á Vörð sem benti á SOS. „Það tók lögfræðing tvo daga að tala við þá hjá Verði til að þessu yrði kippt áfram.“
Ólafur segist ekki vita hvort það lendi á þeim að greiða lögfræðikostnaðinn, auk þess sem systkinin flugu bæði út á eigin kostnað og verða fyrir vinnutapi. Það eigi eftir að koma í ljós og Ólafur segir mikilvægast nú að faðir hans og þau systkinin komist heim frá Spáni.
„Þar sem er töluð íslenska í kringum pabba og þá nær hann að hugsa skýrt á morgnana þegar hann vaknar. Ég veit að tryggingafélagið ætlar að borga hámarksfylgdarbætur, sem er 200 þúsund.“
Faðir hans dvelur nú rúmliggjandi á einkasjúkrahúsi. Ólafur segir faðir hans hafa fengið góða aðhlynningu og þjónustu sérstaklega á einkarekna spítalanum.
„Hann getur staulast um með göngugrind en ekki langt, þannig að hann liggur bara fyrir. Hann verður fluttur með sjúkrabíl út á flugvöll. Það er ekki alveg öruggt hvort hann mun sitja um borð eða vera á börum, þeir hafa tekið sæti úr vélum veit ég til að koma börum fyrir. En miðað við hvernig staðan var á vélinni þá þarf hann líklega að sitja. Það er bara spurning hvað læknirinn segir, hvort hann geti þetta eða ekki. Það er allavega búið að staðfesta sæti fyrir hann eða pláss, við erum loksins með það skriflegt.“
„Eitthvað er þetta að kosta fyrir tryggingafélagið að draga þetta svona. Dagurinn hér er örugglega margfalt dýrari en farið heim.“
Systkinin komast ekki með föður sínum í vélinni og geta því ekki fylgt þessu eftir að sögn Ólafs. Bæði munu fljúga með annarri vél seinna um kvöldið.
Aðspurður um hvað taki við hjá föður hans þegar hann kemur heim segir Ólafur:
„Við erum ekki komin með skriflegt plan um það, en við vonumst til að hann fari bara beint á Landspítalann. Hann getur ekki séð um sig sjálfur, getur ekki staðið upp og mun því þurfa mikla umönnun þegar hann kemur heim.“
Ólafur segir faðir sinn hafa treyst á að hann væri fulltryggður með ferðatryggingu í gegnum kreditkortið sitt. Ólafur bendir einnig á að faðir hans hafi ætlað að vera erlendis í nokkra mánuði og átti flug heim í maí. Hann hafi verið búinn að vera úti í mánuð þegar hann datt.
„Sem betur fer ekki lengur því tryggingin er bara í 60 daga. Ég held að eldra fólk geri sér engan veginn grein fyrir því.“
Þegar tryggingaskilmálar Varðar eru skoðaðir við gullkort á vef Arionbanka, stendur í 1. grein C í 1. kafla að tryggingin gildi:
„Vátryggingin gildir á ferðalagi frá heimili vátryggðs í allt að 60 samfellda ferðadaga.“
Segir Ólafur að best hefði verið að fá skýr svör í upphafi frá tryggingarfélaginu um hvenær faðir hans kæmist heim, eftir viku eða tíu daga, hálfan mánuð, þá hefði verið hægt að gera áætlanir. Faðir hans hefur þó ekki þurft að greiða neinn kostnað vegna aðgerðarinnar eða sjúkrahúsdvalarinnar erlendis, en Ólafur keypti göngugrindina handa honum.
„Við töluðum við íslenskan prest hér sem segir fullt af svona málum í gangi, með svipað vesen.“