Kona hefur verið sakfelld í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að skalla og hrækja á lögreglumenn við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.
Átti þetta sér stað aðfaranótt sunnudags árið 2023. Hrækti konan í andlit eins lögreglumanns og lenti hrákinn í auga hans. Annan lögreglumann skallaði konan í andlitið og hlaut hann högg á nef og kinnbein.
Konan játaði skýlaust. Hún hefur áður komist í kast við laganna verði en árið 2018 hlaut hún sekt á Spáni vegna óhlýðni og mótþróa gagnvart yfirvöldum. Við meðferð málsins fyrir dómi lýsti konan yfir iðrun og sagðist hafa leitað sér aðstoðar.
Það var metið henni til refsilækkunar að um 18 mánuðir eru liðnir frá broti hennar og segir í dómnum að henni verði ekki kennt um þann drátt sem hefði orðið á meðferð málsins.
Því þótti hæfilegt að dæma konuna í 60 daga skilorðsbundið fangelsi en refsingin fellur niður eftir tvö ár haldi konan skilorðið.