fbpx
Sunnudagur 23.febrúar 2025
Pressan

Ráðgátan um líkið á ströndinni: Enginn veit hvaðan hann kom eða hver hann var

Pressan
Laugardaginn 22. febrúar 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tæp sextán ár eru nú liðin frá einu dularfyllsta máli sem írska lögreglan hefur fengist við. Í júní 2009 fannst maður, sem kallaði sig Peter Bergmann, látinn á ströndinni við hafnarbæinn Sligo.

Síðar kom á daginn að nafnið Peter Bergmann var ekki hans rétta nafn. Þrátt fyrir ítarlega rannsókn lögreglu hefur enginn stigið fram og borið kennsl á þennan dularfulla mann sem sýndi býsna einkennilega hegðun dagana fyrir andlát sitt.

Umfjöllunin hér að neðan er meðal annars byggð á umfjöllun Irish Times sem fór í saumana á málinu í tilefni af tíu ára afmæli málsins á sínum tíma.

Talaði með þýskum hreim

Svo virðist vera sem maðurinn hafi gert sér ferð með rútu frá Derry á Norður-Írlandi, hvar hann sást fyrst, til Sligo í norðvesturhluta Írlands þann 12. júní árið 2009. Ekki er vitað hver tilgangur heimsóknar hans til Sligo var en hann tók hótelherbergi á leigu á Sligo City Hotel og notaði til þess nafnið Peter Bergmann og heimilisfangið Ainstettersn 15, 4472, Vín, Austurríki.

Hann átti í afar takmörkuðum samskiptum við aðra, en starfsfólk hótelsins lýsti því þó að hann hafi virkað rólegur og yfirvegaður og talað með sterkum þýskum hreim. Hann var nokkuð snyrtilegur til fara, nýrakaður, í svörtum leðurjakka og í svörtum skóm af stærð 44.

Þegar Bergmann fannst svo látinn, allsnakinn, á ströndinni þann 16. júní reyndi lögregla að varpa ljósi á það hvað hann hafðist við dagana fyrir andlátið. Rannsókn leiddi í ljós að hann var 179 sentímetrar á hæð og voru fötin hans flest frá verslunarkeðjunni C&A sem er vinsæl í Evrópu og rekur fjölmargar verslanir bæði í Þýskalandi og í Austurríki.

Alltaf með fjólubláan plastpoka með sér

Lögregla fór meðal annars yfir eftirlitsmyndavélar af hótelinu og nágrenni þess. Hann sást yfirgefa hótelherbergi sitt alls þrettán sinnum og í öll skiptin var hann með fjólubláan plastpoka meðferðis. Af myndum að dæma var pokinn fullur af einhverju en þegar hann sneri til baka var hann tómur. Hann sást aldrei losa sig við eitt né neitt og virðist hafa markvisst reynt að forðast eftirlitsmyndavélar fyrir utan sjálft hótelið. Taldi lögregla að þarna hafi hann verið að losa sig við allt sem mögulega gæti varpað ljósi á hver hann væri.

Þá sást hann aldrei nota síma, hvorki farsíma né síma á hótelinu. Hann keypti tíu frímerki í Sligo en virðist þó ekki hafa sent nein bréf frá sér, hvorki frá pósthúsi bæjarins eða með því að setja bréfin í póstkassa. Bergmann, sem var líklega á sjötugsaldri, virðist hafa haft áhuga á að sjósundi því leigubílstjóri í bænum steig fram og sagðist hafa rætt við hann kvöld eitt. Þá hafi maðurinn, Bergmann, spurt hann út í hentuga staði til sjósunds. Þá sáu vitni hann á ströndinni á kvöldin þar sem hann gekk með fram sjónum, berfættur.

Fékk hjartaáfall

Þann 15. júní 2009, klukkan 13:06, tékkaði Bergmann sig út af hótelinu og skilaði lyklunum. Hann var með fjólubláan plastpoka meðferðis og tösku, en þó ekki sömu tösku og hann kom með þegar hann skráði sig fyrst inn á hótelið nokkrum dögum fyrr.

Þaðan lá leiðin að strætóstoppistöð og svo að verslunarmiðstöð þar sem hann sást á eftirlitsmyndavélum. Þaðan gekk hann aftur í átt að strætóstoppistöð þar sem hann pantaði sér kaffi og samloku með skinku og osti. Á meðan hann borðaði samlokuna og drakk kaffið sást hann lesa á miða sem hann var með í vasanum. Hann reif svo miðann í tvennt og henti honum í ruslið. Þaðan tók hann strætó að ströndinni í Rosses Point þar sem nokkrir vegfarendur sáu hann.

Það var svo að morgni 16. júní 2009 að einstaklingur sem var að æfa sig á ströndinni fyrir keppni í þríþraut gekk fram á lík Bergmanns á grúfu í sandinum. Lögregla taldi í fyrstu að hann hefði drukknað en krufning leiddi í ljós að hann hafði fengið hjartaáfall. Þá leiddi krufningin í ljós að hann var með krabbamein í blöðruhálskirtli og meinvörp í beinum. Krufningin leiddi í ljós að hann var almennt við slæma heilsu og hefði að líkindum þurft að vera á verkjalyfjum til að gera líf sitt bærilegt.

„Það væri auðvelt að draga þá ályktun að hann hafi verið fyrrverandi hermaður eða einhverskonar lögreglumaður,“ sagði íbúi í bænum í samtali við Irish Times á sínum tíma. Sannleikurinn er þó sá að lögregla er engu nær um hver hann var, hvers vegna hann notaði ekki sitt rétta nafn eða hvaðan hann kom. Þá vekur það ekki síður spurningar að enginn hafi stigið fram og borið kennsl á manninn. Fimm mánuðum eftir andlátið var Peter Bergmann grafinn í kirkjugarði í Sligo. Viðstaddir útförina voru fjórir írskir lögreglumenn sem komu að rannsókn málsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Fangaverðir ákærðir í óhugnanlegu máli

Fangaverðir ákærðir í óhugnanlegu máli
Pressan
Fyrir 2 dögum

Elon Musk sveiflaði keðjusög og lét Zelensky heyra það – Sjáðu myndbandið

Elon Musk sveiflaði keðjusög og lét Zelensky heyra það – Sjáðu myndbandið
Pressan
Fyrir 2 dögum

Afhjúpar 13 stærstu lygar Donald Trump síðan hann tók við sem forseti Bandaríkjanna

Afhjúpar 13 stærstu lygar Donald Trump síðan hann tók við sem forseti Bandaríkjanna
Pressan
Fyrir 2 dögum

Bað íhaldsmenn að útskýra ummæli Trumps eins og fyrir barni og ekki stóð á svörum – „Nei við erum ekki orðin að einveldi“

Bað íhaldsmenn að útskýra ummæli Trumps eins og fyrir barni og ekki stóð á svörum – „Nei við erum ekki orðin að einveldi“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Neyðast hugsanlega til að hætta að selja Coca-Cola í dós

Neyðast hugsanlega til að hætta að selja Coca-Cola í dós
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ríkustu menn Ítalíu héldu að varnarmálaráðherrann þarfnaðist aðstoðar þeirra – Síðar rann ótrúlegur sannleikurinn upp fyrir þeim

Ríkustu menn Ítalíu héldu að varnarmálaráðherrann þarfnaðist aðstoðar þeirra – Síðar rann ótrúlegur sannleikurinn upp fyrir þeim
Pressan
Fyrir 3 dögum

Basl Markle heldur áfram – Úthugsuð markaðsbrella eða bara vandræðagangur og vanþekking?

Basl Markle heldur áfram – Úthugsuð markaðsbrella eða bara vandræðagangur og vanþekking?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Kennari setti netið á hliðina með eitraðri pillu sem hann sendi öfgahægri-miðli – „Nei vinur, andspyrnan er raunveruleg“

Kennari setti netið á hliðina með eitraðri pillu sem hann sendi öfgahægri-miðli – „Nei vinur, andspyrnan er raunveruleg“