Raphael Varane fyrrum leikmaður Manchester United fer ekki fögrum orðum um Erik ten Hag og hvernig hann stýrir liði. Hann segir stjórann alltaf vilja vera í stríði.
Varane fór frá United síðasta sumar og Ten Hag var svo rekinn nokkrum mánuðum síðar.
„Við áttum heiðarlegt samtal, við ræddum um okkar skoðun á málinu. Ég spilaði ekki í tvo mánuði eftir það, ég sagðist ekki vera sammála því hvernig hann kæmi fram við leikmenn,“ sagði Varane.
„Ég taldi að þetta væri ekki gott fyrir liðið því margir leikmenn voru ósáttir. Það var ekki gott samband við þjálfarann.“
Varane segist hafa verið hissa á því að Ten Hag hafi haldið starfinu síðasta sumar því sambandið hafi verið dautt við leikmenn.
„Hann vildi fá virðingu í gegnum ótta,“ sagði Varane og átti þar við hvernig sá hollenski tók á Cristiano Ronaldo og Jadon Sancho.
„Hann þurfti alltaf að vera að búa til fordæmi með leikmönnum. Hann gerði þetta með einn mikilvægan leikmann, hann var alltaf í stríði við einn af lykilmönnum liðsins. Svona vildi hann stýra hlutunum.“