Nokkuð hefur borið á því að ferðamenn virði ekki reglur á vinsælum ferðamannastöðum. Fari út fyrir göngustíga og inn á gróðurverndarsvæði og jafn vel hættulega staði. Er þetta Íslendingum jafnt sem öðrum ferðamönnum til mikils ama.
Borið hefur á því á samfélagsmiðlasíðum fyrir ferðamenn að birtar séu myndir af ferðamönnum sem fara yfir strikið, bókstaflega. Það er fara út af merktum gönguleiðum á vinsælum ferðamannastöðum. Meðal annars til þess að láta mynda sig.
Hefur verið fjallað um þetta í erlendum fjölmiðlum, meðal annars miðlinum The Cool Down.
„Þegar þú ert að ferðast og veltir fyrir þér: „Ætti ég að gera þetta?“ og myndir svo spyrja þig hvort það hefði neikvæð áhrif ef næstu þúsund manns myndu gera það sama og svarið er já þá skaltu ekki gera það,“ sagði einn ferðamaður á samfélagsmiðlinum Reddit.
Hafa ferðamenn meðal annars verið myndaðir við að klifra stuðlaberg við Reynisfjöru og fara skuggalega nálægt klettabrún við Stuðlagil. Þetta eru báðir staðir þar sem hafa orðið banaslys á undanförnum árum, síðast í október á síðasta ári þegar kona á fertugsaldri lést í Jökulsá í Stuðlagili. Nokkur banaslys hafa orðið í Reynisfjöru þegar aldan hefur hrifsað fólk á haf út.
Óvirðingin á ekki aðeins við um náttúruperlur því eins og DV fjallaði um í janúar þá príluðu og hoppuðu kínverskir ferðamenn á Douglas R4D-S flugvélarflakinu sem stendur á Eyvindarholti undir Eyjafjöllum. Þar eru skýrar merkingar um að fólk sýni flakinu virðingu og fari ekki inn í það. Einnig hunsuðu ferðamennirnir aðra ferðamenn sem bentu þeim á reglurnar.
„Mér finnst að það ætti að ræða við svona fólk. Spyrja það beint út: Af hverju heldur þú að þú sért betri en aðrir hérna?“ sagði einn ferðamaður í umræðum á Reddit um myndir af manni sem hafði farið hættulega nálægt brúninni við Stuðlagil.
„Það er oft reynt að segja þeim að þetta sé bannað en það er bara hunsað,“ svarar annar.
„Þetta er ástæðan fyrir því að Japanir eru farnir að banna ferðamenn á sumum stöðum og setja upp veggi á sumum ferðamannastöðum. Hversu erfitt er það fyrir fólk að fara eftir þeim reglum sem eru settar?“ spyr einn.
Einn nefnir að samfélagsmiðlar hafi skapað þessa týpu af ferðamanni. Það er ókurteist fólk, sem virði ekki reglurnar á þeim stöðum sem það heimsækir og sé sama um náttúruna. Það eina sem skipti máli sé að ná góðum myndum til að birta á samfélagsmiðlareikningum sínum.
Einnig eru dæmi um að þessir ferðamenn sýni öðrum sem reyni að benda þeim á reglurnar fullkominn dónaskap.
„Ég sá mann sem kallaði á hóp af stúlkum í Reynisfjöru sem fóru inn fyrir girt svæði. Þær sendu honum bara puttann,“ segir ein kona sem var afskaplega hneyksluð að fylgjast með öðrum ferðamönnum á Íslandi. „Fólk er að koma til að heimsækja heimaland annars fólks og kemur fram við það af fullkominni óvirðingu. Bréfþurrkur út um allt, fólk traðkandi á viðkvæmu landslagi, hundsandi skilti og gangandi yfir svæði sem verið er að byggja upp. Á göngustíg í Reykjadal sá ég haug af mannaskít.“