„Sultarkvein fuglanna sker í hjartastað“. Þannig hefst færsla þar sem sjálfboðaliðar Dýravaktarinnar biðla til fólks um að styrkja samtökin svo kaupa megi fóður handa fuglunum við Reykjavíkurtjörn, Kópavogslæk, Hafnarfjarðarlæk og víðar.
„Það var erfitt að hafa ekki nóg fóður í dag fyrir Grágæsirnar á Reykjavíkurtjörn sem eltu mig að bílnum mínum en sjóðurinn er tómur,“ skrifar Ingiveig Gunnarsdóttir sjálfboðaliði í hópnum Björgum dýrum í neyð.
Segir hún í færslunni sem birt er á mánudag að Dýravaktin hafi frá því á fimmtudaginn keypt fóður í Costco fyrir 60.000 kr. en á sama tíma fengið samtals 31.000 krónur inn á styrktarreikninginn þeirra. (Sjá reikningsupplýsingar neðar í fréttinni).
„Bakkarnir við Reykjavíkurtjörn hafa ekki verið þrifnir í rúman mánuð og það sama á við um Hafnarfjörð. Sveitastjórnir ættu að sjá sóma sinn í því að halda umhverfi alfriðaðra borgarfugla hreinu og snyrtilegu. Fólk heldur áfram að tæma úr lífrænu ruslafötunum sínum á gjafstaðina,“ skrifar Ingiveig og birtir með mynd frá Kópavogslæk.
„Ekki nema von að dýrin veikist. Ein góð kona var að henda pylsum í endurnar og sætum kartöflum.“
Ingiveig birtir einnig myndir af grágæsum tveimur sem hún kallar Hönnu og Siggu, báðar eru fleygar en slasaðar á fæti. Segist Ingiveig hafa verið hjá annarri þeirra við Hafnarfjarðarlæk og hinni við Tjörnina og passað upp á að þær borðuðu. Hettumávarnir hafi verið aðgangsharðir við Tjörnina.
„Sá Stokkandarstegginn Bigga á tjarnarbakkanum í gær en ekki í dag. Hann er með bólgin háls, hefur hugsanlega gleypt eitthvað drasl. Hann borðar vel en hristir hausinn og líður greinilega ekki vel. Erum að fylgjast með og reyna að ná þessum fuglum og koma þeim í umönnun dýralæknis Dýraþjónustu Reykjavíkur.“
Dýravaktin fékk stuðning frá Kópavogsbæ upp á 100.000 krónur. Reykjanesbær neitaði stuðningi, en svar er ekki komið frá Seltjarnarnesbæ.
„Við sjálfboðaliðar leggjum bæði mikinn tíma, vinnu og talsverðar upphæðir í að fóðra þúsundir andfugla. Enn er hávetur og andfuglarnir reiða sig á okkur en um leið og hlýnar og vorið kemur hverfa þeir á braut.“
Í Facebookhópnum eru tæpir 3000 meðlimir og bendir Ingiveig á að ef hver og eitt myndi styrkja þó ekki væri nema 1000 krónur á mann væri málinu reddað.
Þeir sem hafa tök á að styrkja Dýravaktina geta lagt inn á neðangreindan reikning:
Reikningur: 0357-26-001700
Kennitala: 630125-0220
Ingiveig bendir á að þeir sem vita um fyrirtæki sem vilja styðja við dýravelferðarstarfið geta sent henni skilaboð á Messenger eða með tölvupósti ingiveig@gmail.com og samtakanna dyravaktin@dyravaktin.is. Heimasíða er í vinnslu.