fbpx
Mánudagur 24.febrúar 2025
Pressan

Þeir vildu ekki vera aðskildir en það endaði með ólýsanlegum hörmungum

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 23. febrúar 2025 22:00

Sullivan-bræðurnir fimm. Frá vinstri: Joseph, Francis, Albert, Madison og George. Mynd: U.S. Naval Historical Center.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir að Japanir réðust á flotastöð Bandaríkjanna í Pearl Harbor á Hawaii í Kyrrahafi 7. desember 1941 svöruðu margir ungir bandarískir karlmenn kallinu og skráðu sig fúslega til herþjónustu. Meðal þeirra voru fimm bræður Joseph, Francis, Albert, yfirleitt kallaður Al, Madison, sem var iðulega kallaður Matt og svo loks George Sullivan. Þeir skráðu sig í sjóherinn og fóru fram á það að verða ekki aðskildir og fá þannig að vera á sama skipinu. Yfirleitt var það stefna sjóhersins að systkini gegndu ekki herþjónustu á sama stað. Í tilfelli Sullivan bræðranna var hins vegar ákveðið að gera undantekningu. Það átti hins vegar eftir að enda með verstu mögulegu niðurstöðu fyrir bræðurna og fjölskyldu þeirra.

Auk sonanna fimm áttu foreldrar bræðranna tvær dætur, en önnur þeirra dó þegar hún var ungabarn. Fjölskyldan var frá borginni Waterloo í Iowa ríki. Elstur var George sem var fæddur 1914, Francis fæddist 1916, Joseph kom í heiminn 1918, Matt fæddist 1919 og yngstur var Albert sem bættist í hópinn 1922.

Sóttu það fast að vera saman

Bræðurnir hikuðu ekki við að skrá sig allir með tölu í sjóherinn eftir árásina á Pearl Harbor en þeir tóku í raun árásinni persónlega því góður vinur þeirra William Ball var um borð í USS Arizona, sem var eitt þeirra herskipa sem sökt var í árásinni, og lifði ekki af. Þess má geta að skipið er enn á sama stað í sjónum og það hefur verið síðan það sökk en minnismerki er á yfirborðinu beint fyrir ofan skipið en það er vel sótt af gestum ár hvert.

Elstu bræðurnir tveir George og Francis höfðu áður verið í sjóhernum og voru því ekki alveg á nýjum slóðum eins og yngri bræður þeirra.

Bræðurnir fimm sóttu það mjög fast að fá vera allir á sama skipinu. Yfirmönnum þeirra í sjóhernum leist ekki vel á það, enda var slíkt ekki í samæmi við stefnu sjóhersins, og voru tregir til að verða við bón þeirra.

George brá þá á það ráð að rita ráðherra flotamála, Frank Knox, bréf. Í þá daga átti ráðherra þessa málaflokks sæti í ríkisstjórn Bandaríkjanna en síðar meir var embættið fært undir embætti varnarmálaráðherra eftir að það kom til sögunnar.

Í bréfinu til ráðherrans lagði George mikla áherslu á að bræðurnir fengju að vera á sama skipi. Saman væru bræðurnir teymi sem ekki væri hægt að vinna sigur á. Bréfið virðist hafa dugað til og sjóherinn samþykkti þessa eindregnu bón þeirra.

Juneau

Eftir þjálfun voru bræðurnir sendir um borð í herskipið USS Juneau í febrúar 1942. Skipið var glænýtt en það var formlega sjósett í október 1941. Í áhöfn  voru um 700 sjóliðar og herforningjar.

Í nóvember þetta ár tók skipið þátt í mikilli sjóorrustu á milli Bandaríkjanna og Japan. Orrustan er kennd við Guadalcanal eina af eyjum Salómonseyja í Kyrrahafi en eyjarnar eru norðaustur af Ástralíu.

Þessi orrusta var ein sú blóðugasta í seinni heimsstyrjöldinni.

Orrustan stóð í um 4 daga en um miðnættið fyrsta dag hennar varð Juneau fyrir japönsku tundurskeyti. Um morguninn skall annað tundurskeyti á skipinu með þeim afleiðingum að sprenging varð í skotfærageymslum skipsins og á endanum sprakk skipið allt og sökk síðan á innan við mínútu.

Af þeim sem um borð voru létust 687 en aðeins 10 komust lífs af. Af Sullivan bræðrunum dóu Francis, Joseph, og Madison samstundis. Albert drukknaði daginn eftir. George komst illa særður á fleka en hann varð á endanum sjónum að bráð.

Bræðurnir fimm voru því allir látnir.

Lengi að fréttast

Það tók hins vegar heillangan tíma að tilkynna foreldrum þeirra um hvað hefði gerst en það átti ekki síst í skýringu að nauðsynlegt var talið að halda því leyndu fyrir óvininum hversu mikill skaði Bandaríkjanna nákvæmlega var. Í janúar 1943 voru tveir mánuðir liðnir og þá var móður bræðranna, Alleta, nóg boðið. Hún hafði heyrt orðróm um að allir synir hennar hefðu látist í bardaga. Hún óskaði svara frá sjóhernum. Hún sagðist vera óskaplega áhyggjufull en baðst um leið afsökunar á ónæðinu.

Fljótlega eftir að bréf hennar barst var foreldrum bræðranna tilkynnt að sona þeirra væri saknað en heimildum ber ekki saman um hvort tilkynningin hafi verið um það eða að þeir væru látnir. Þegar einkennisklæddir fulltrúar sjóhersins mættu á heimili hjónanna vissi Thomas strax um að eitthvað alvarlegt hefði gerst. Mun hann hafa spurt um hvern sona hans hefði verið að ræða en alls ekki átt von á svarinu:

„Þá alla.“

Daginn eftir barst hjónunum bréf frá forseta Bandaríkjanna, Franklin Delano Roosevelt. Hann reyndi að hughreysta hjónin með orðum um að synir þeirra hefðu barist saman af djörfung og rifjaði upp orð George um að saman væru bræðurnir óstöðvandi teymi.

Minningin

Minningu bræðranna var strax haldið hátt á lofti. Tvö herskip fengu nafnið The Sullivans og 1944 var frumsýnd kvikmynd byggð á sögu þeirra.

Foreldrar þeirra og eftirlifandi systirin Genevieve gerðust sjálfboðaliðar og ferðuðust um allt land til að hvetja starfsfólk í vopna- og skipaverksmiðjum til að leggja eins mikið á sig og hægt væri í því skyni að vinna sigur í stríðinu sem fyrst.

Í kjölfar dauða bræðranna voru ekki gerðar sérstakar breytingar á ákvæðum reglna um að systkini gengdu saman herþjónustu.

Árið 1944 munaði litlu að sagan endurtæki sig en þá var Fritz Niland sem var í landhernum sendur heim eftir að þrír bræður hans höfðu látist í stríðinu en sú saga varð síðar innblástur að kvikmyndinni Saving Private Ryan.

Enn í dag er Sullivan bræðranna minnst ekki síst fyrir þá miklu tryggð og samstöðu sem ríkti á milli þeirra en velta má fyrir sér hvernig hefði farið ef það hefði ekki ráðið för í jafn miklum mæli hjá þeim bræðrum.

Einkum byggt á umfjöllun Allthatsinteresting.com

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Vilja að fólk gangi í hjónaband og eignist börn – Enginn hlustar á þetta

Vilja að fólk gangi í hjónaband og eignist börn – Enginn hlustar á þetta
Pressan
Í gær

Missouri stefnir Starbucks – Segir að fjölbreytileikastefnan hafi komið niður á viðskiptavinum

Missouri stefnir Starbucks – Segir að fjölbreytileikastefnan hafi komið niður á viðskiptavinum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Snarráður 12 ára drengur sló innbrotsþjóf í klofið með hamri

Snarráður 12 ára drengur sló innbrotsþjóf í klofið með hamri
Pressan
Fyrir 3 dögum

Mikill ótti eftir að lík fannst í tösku – „Allir eru hræddir“

Mikill ótti eftir að lík fannst í tösku – „Allir eru hræddir“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Faðirinn sá eini úr fjölskyldunni sem enn er á lífi

Faðirinn sá eini úr fjölskyldunni sem enn er á lífi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Bankastarfsfólki sagt að finna sér aðra vinnu ef það sættir sig ekki við nýja reglu

Bankastarfsfólki sagt að finna sér aðra vinnu ef það sættir sig ekki við nýja reglu