Úrskurðarnefnd vátryggingamála komst nýlega að þeirri niðurstöðu að tryggingafélagi, sem er ekki nefnt á nafn í úrskurðinum, bæri að greiða að fullu fyrir viðgerð á Rolex-úri sem er í eigu einstaklings sem var með fjölskyldutryggingu hjá félaginu. Kostaði viðgerðin hátt í hálfa milljón króna en félagið greiddi um helming upphæðarinnar en hefur neitað að greiða meira þrátt fyrir úrskurð nefndarinnar.
Úrið brotnaði sumarið 2024 eftir að það datt á gólf. Tryggingafélagið féllst á að greiða fyrir varahluti í gangverki úrsins, krónu, gler, skífu og vísa en ekki fyrir svokallaða „gjörskoðun“ á úrinu eða nýjan lás á keðju og tvo tengihlekki.
Féllst félagið á að greiða eiganda úrsins alls 239.700 krónur án tillits til eigin áhættu hans. Gjörskoðunin kostaði hins vegar 148.000 krónur og þá upphæð neitaði félagið að greiða. Sérfræðingur Rolex á Íslandi framkvæmdi skoðunina en í henni fólst að gangverk úrsins var tekið í sundur og hreinsað, partar endurnýjaðir og samsetning gerð með ferskum olíum, gangstilling samkvæmt kröfum Rolex og 5 daga gangprófanir gerðar. Sömuleiðis fælist í skoðuninni að úrkassi væri tekinn í sundur, hreinsaður og slípaður og pakkningar endurnýjaðar ásamt því að keðja væri hreinsuð og slípuð og pinnar endurnýjaðir.
Til viðbótar við skoðunina kostuðu lás í keðju og tveir tengihlekkir 96.300 krónur og þá upphæð neitaði tryggingafélagið sömuleiðis að greiða.
Heildarkostnaðurinn við viðgerðina var því 484.000 krónur.
Í skýrslu sérfræðingsins kom fram að Rolex geri þá kröfu að fram fari skoðun af þessu tagi þegar gert sé við úr frá fyrirtækinu. Einnig sagði sérfræðingurinn að lás hafi verið skakkur eftir tjónið á úrinu og nauðsynlegt hafi verið að yfirfara allt gangverk þess til að útiloka að glerflísar væru sem haft gætu áhrif á virkni úrsins væru til staðar.
Eigandi úrsins vísaði til þessarar skýrslu sérfræðingsins þegar hann krafðist þess að tryggingafélagið greiddi honum þær 244.300 krónur sem vantaði upp á til að tjónið á úrinu yrði bætt að fullu.
Tryggingafélagið vildi hins vegar meina að gjörskoðunin hefði falið í sér almennt viðhald enda hafi úrið verið 20 ára gamalt. Fullyrðing sérfræðingsins um að tjón hafi orðið á lásnum væri enn fremur einhliða. Vísaði félagið í skilmála sína þar sem komi m.a. fram að tjón vegna eðlilegs slits verði ekki bætt. Vísaði félagið einnig til upplýsinga á vefsíðu Rolex um að mælt sé með því að úr fyrirtækisins séu send í þjónustuskoðun á tíu ára fresti. Í slíkri skoðun felist það sem sé framkvæmt í gjörskoðun. Eigandinn eigi því ekki rétt á bótum vegna hennar þar sem tími hafi verið kominn á slíka skoðun.
Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum segir í sinni niðurstöðu að í skilmálum tryggingafélagsins komi fram að viðskiptavinir fái raunverulegt tjón bætt og miðað sé við að ástand þess munar sem verði fyrir tjóni verði það sama og áður en tjónið varð. Í skilmálum fjölskyldutryggingar fyrirtækisins komi sömuleiðis fram að bætur vegna tjóns á innbúi miðist við að fjárhagsstaða hins vátryggða verði sú sama og fyrir tjónið og að frádráttur vegna aldurs og notkunar komi aðeins til greina ef notagildi hlutarins hafi minnkað verulega fyrir viðkomandi. Samkvæmt þessu skilmálum verði ekki annað séð en félagið miði bætur vegna tjóns á úrum við að það sé bætt að fullu.
Nefndin segir gögn málsins benda eindregið til að gjörskoðunin, sem tryggingafélagið neitaði að borga, hafi verið nauðsynleg og að laga hafi þurft lásinn vegna skekkju. Tryggingafélagið hafi ekki fært sönnur á að þetta tvennt, sem það neitaði að greiða fyrir, hafi ekki verið nauðsynlegt og heldur ekki tekist að sanna að skoðunin hefði falið í sér venjubundið viðhald og væri því ekki bótaskyld.
Þar af leiðandi beri félaginu að greiða eiganda úrsins þær 244.300 krónur sem vantaði upp á til að tjónið á úrinu yrði bætt að fullu.
Úrskurðurinn hefur hins vegar verið merktur með þeim orðum að varnaraðili, þ.e.a.s. tryggingafélagið, hafi hafnað því að fara eftir úrskurðinum en það er ekki skýrt nánar. Ljóst virðist því að ætli eigandi úrsins sér að fá þessar 244.300 krónur greiddar að þá sé ekki önnur leið fær en málshöfðun fyrir dómi.