Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar, segir að íslenska vegakerfið sé meira og minna styrkur til stórfyrirtækjanna Samskipa og Eimskips sem og rútufyrirtækja landsins. Ástand vegakerfisins megi fyrst og fremst rekja til umferðar flutningabíla og stórra fólksflutningabíla sem eyði vegum þúsundfalt á við venjulega fólksbíla.
Gunnar vekur athygli á þessu á Facebook og vitnar til svars samgönguráðuneytis við fyrirspurn á Alþingi árið 2008. Þar kom fram að ein ferð flutningabíls, án tengivagns, með 80% hleðslu geti valdið svipuðum niðurbrotsáhrifum og 9 þúsund ferðir fólksbifreiðar sem er 1.800 kíló að þyngd.
Þegar talað sé um vegatolla sé gjarnan vísað til þess að það sé réttlátt að þeir sem noti vegina borgi fyrir þá. Þetta sé þó í reynd aðeins réttlátt ef fyrirtæki sem eyða vegunum mest, svo sem Eimskip og Samskip, borgi þessa tolla. Ef almenningur á hins vegar að borga brúsann sé í reynd verið að styrkja þessi fyrirtæki um marga milljarða á ári og það látið óátalið að þessi fyrirtæki eyðileggi vegina endurgjaldslaust.
„Vegakerfið er meira og minna styrkur til Samskipa, Eimskips og rútufyrirtækjanna
Vegakerfið er illa farið, fyrst og fremst vegna umferðar flutningabíla og stórra fólksflutningabíla, sem eyða vegunum þúsundfalt á við fólksbíla.
Í svari samgönguráðuneytisins við fyrirspurn á Alþingi árið 2008 kom fram að ein ferð flutningabíls án tengivagns með 80% hleðslu gæti valdið svipuðum niðurbrotsáhrifum og 9.000 ferðir 1.800 kg. fólksbifreiðar og að ein ferð flutningabíls með tengivagn og 80% hleðslu gæti valdið svipuðum niðurbrotsáhrifum og 12.000 ferðir 1.800 kg. fólksbifreiðar.
Dagleg meðaltalsumferð eftir Borgarfjarðarbraut á sumrin eru 2700 bílar á sólarhring. Einn flutningabíll spænir því upp slitlagi í einni ferð eins og öll umferð fólksbíla á hálfri viku. Eftir þessum vegi keyra fjöldamargir flutningabílar á hverjum degi svo augljóst er að umferð fólksbíla skiptir eiginlega sáralitlu ef nokkru máli í samanburði við þungaflutninga Samskipa og Eimskips og keyrslu fólksflutningabíla með ferðamenn.
Yfir Hellisheiði fara á sumrin um 14 þúsund bílar á sólarhring. Allir fólksbílarnir eyða álíka og einn af flutningabílunum með tengivagn. Og flutningabílarnir sem keyra yfir heiðina skipta tugum.
Niður Bröttubrekku keyra um 1050 bílar að meðaltali á sumrin á hverjum degi. Þar af eru nokkrir flutningabílar drekkhlaðnir eldislaxi úr sjókvíum Vestfjarða. Þeir flutningar eru svo veigamiklir að fiskeldisfyrirtæki ættu í reynd ein að borga viðhald og uppbyggingu þessa vegar.
Stundum er því haldið fram að réttlátt sé að þeir borgi sem nota. Þetta er mandra þeirra sem vilja leggja á vegatolla. Þeir segja að réttlátt sé að þeir sem noti vegina borgi fyrir þá. Ef það er réttlátt ætti að senda reikning fyrir viðhaldi og endurnýjun vegakerfisins til Eimskips (þar sem Samherji er stærsti eigandinn), Samskipa (þar sem Ólafur Ólafsson er aðaleigandi), til laxeldisfyrirtækja á Vestfjörðum, rútufyrirtækja og þeirra sem eyða upp slitlaginu. Það er fráleitt að allur almenningur sé að styrkja þessa aðila um marga milljarða króna á hverju ári og láta það óátalið að þeir séu að eyðileggja vegina okkar endurgjaldslaust. “