fbpx
Þriðjudagur 18.febrúar 2025
Fréttir

Ljóst að ákvarðanir voru teknar að illa ígrunduðu máli – „Það er hagfræði andskotans og bakreikningurinn verður þungur“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 17. febrúar 2025 18:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, segir blasa við að mistök voru gerð þegar úrræðum á borð við meðferðarheimilinu Háholti í Skagafirði var lokað. Háholti var lokað árið 2017. Ákvarðanir um lokanir hafi verið teknar að illa ígrunduðu máli og fyrirætlanir um þau úrræði sem áttu að koma í staðinn gengu ekki eftir. Þetta sé stór ástæða þess úrræðaleysis sem nú ríkir í málaflokki barna með fjölþættan vanda.

Verri þjónusta og dýrari

Jón Gnarr skrifar um þetta á Facebook. Þar rekur hann að hann viti ekki til annars en að Háholt hafi verið rekið með gott orðspor og hafi vel sinnt mikilvægu hlutverki sínu. Barnaverndarstofa ákvað að loka heimilinu, gerði það án nokkurs samráðs við Byggðarráð Skagafjarðar og með vísan til breyttra meðferðaráherslna og þess að færa ætti þjónustuna til höfuðborgarsvæðisins.

Árið 2022 skipaði þáverandi mennta- og barnamálaráðherra stýrihóp um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Niðurstaða hópsins var sú að skortur væri á fjölbreyttum úrræðum sem henti ólíkum þörfum barna í mismunandi aðstæðum. Hópurinn lagði til að komið yrði á fót sambærilegu úrræði og var rekið í Háholti.

„Eftir að hafa skoðað þetta verklag og í ljósi þess ömurlega neyðarástands sem nú ríkir í málefnum barna og ungmenna með fjölþættan vanda og eftir að hafa rætt við fólk sem starfar í málaflokknum, get ég ekki annað séð en að það hafi verið mistök að loka fjölda úrræða og þær ákvarðanir hafi verið teknar að illa ígrunduðu máli og að fyrirætlanir um ný úrræði hafi ekki gengið eftir og sé nú stór ástæða þess mikla úrræðaleysis sem nú ríkir í málaflokknum. Þjónustan við þessi börn er verri en hún var og líka margfalt dýrari. Skemmst er að minnast hræðilegra frétta frá Stuðlum og nú nýverið að börn séu nú vistuð í fangaklefum.“

Hvað þarf mörg áföll?

Jón segir ljóst að við séum á rangri leið í þessum málaflokki og spyr hvort samfélagið geti ekki tekið höndum saman til að greiða úr þessum vanda. Þetta sé ekki það stór hópur barna að verkefnið sé óyfirstíganlegt. Þetta sé mjög gerlegt.

„Við erum svo greinilega á rangri leið hér. Getum við sem samfélag nú ekki tekið höndum saman og greitt úr þessum vanda ? Hvað þarf mörg áföll svo við vöknum til meðvitundar ? Þetta er vissulega flókið mál en þetta eru samt ekki svo mörg börn. Þetta er mjög gerlegt. Og oft þarf minna til en við kannski höldum. Ég hef fundað með fjölda fólks sem starfar að velferðarmálum barna og á fund með bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ í vikunni. Það er engin ein manneskja með töfralausn. Lausnin byggir á samvinnu ríkis og sveitarfélaga og frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja. Við þurfum að fjárfesta í Stuðlum og starfseminni og efla og styrkja starfsemina þar. Svo þurfum við að endurvekja langtímaúrræði eins og Háholt.

Það ríkir neyðarástand í barnaverndarmálum. Kostnaðurinn er að verða sveitarfélögunum ofviða. Þar getum við gert betur.“

Jón rekur að vissulega muni fylgja þessu kostnaður, bæði stofnkostnaður og svo kostnaður við rekstur. En vandinn sé þegar til staðar og það sé ekki hægt að láta börn þjást í nafni sparnaðar.

„Það er hagfræði andskotans og bakreikningurinn verður þungur. Aðgerðir í málefnum okkar verst stöddu barna er sparnaðaraðgerð því þau eru nú þegar að kosta samfélagið mikið og verða fyrir ómetanlegum skaða.
Við getum valið um að aðstoða börn til að verða ábyrgir og gegnir einstaklingar sem leggja sitt af mörkum til samfélagsins. “

Þekkjum svona sögur

Jón rekur að aðgerðarleysi fylgi líka kostnaður. Ef börn fá ekki aðstoð geti þau endað sem fullorðið fólk sem þurfi að reiða sig á fjárstyrki frá hinu opinbera og jafnvel lent í þeirri stöðu að vandi þeirra versni og samfélaginu stafi hætta af þeim.

„Við sem fullorðin erum þekkjum svona sögur, höfum fylgst með krökkum í fjölskyldum okkar eða fjölmiðlum, sem eiga í vanda og birtast okkur svo einn daginn í fréttum í tengslum við fíkniefni eða glæpi. Ég þekki svona sögur úr minni eigin fjölskyldu. Og við vitum í hjarta okkar að þetta hefði ekki þurft að enda svona illa. Það hefði mátt afstýra harmleik, hörmulegu slysi og jafnvel dauða. Bara ef brugðist hefði verið við fyrr. Bara ef ,,einhver” hefði gert ,,eitthvað.”“

Það þurfi eins að styrkja forvarnir. Jón leggur til að taka aftur upp svokallað íslenska forvarnarmódelið sem hann segir að hafi gjörbreytt unglingamenningu hér áður en sé nú gleymt og grafið, þó enn sé eftirspurn eftir því erlendis. Það sé jákvætt að nú eigi að fjölga lögreglufólki en Jón vill gjarnan sjá endurlífgun forvarnadeildar lögreglu sem var lögð niður í nafni sparnaðar eftir efnahagshrunið 2008.

„Málefni barna eru þverpólitískt mál. Fíkn, ofbeldi, geð- og taugaraskanir fara ekki í manngreinaálit. Það er hagur okkar allra að bregðast við. Við getum gert betur. Við erum að fara vitlausa leið hér. Viðurkennum það. Snúum við og gerum svo eitthvað.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Síbrotamaðurinn Guðfinnur sakfelldur fyrir nauðganir

Síbrotamaðurinn Guðfinnur sakfelldur fyrir nauðganir
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Takmarkanir settar á útlitsbreytandi meðferðir með fylliefnum

Takmarkanir settar á útlitsbreytandi meðferðir með fylliefnum
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Myndband sýnir augnablikið þegar flugvél Delta brotlenti – Ótrúlegt að allir hafi lifað slysið af

Myndband sýnir augnablikið þegar flugvél Delta brotlenti – Ótrúlegt að allir hafi lifað slysið af
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Segir að Pútín gleðjist yfir taktík Trump

Segir að Pútín gleðjist yfir taktík Trump
Fréttir
Í gær

Vilja fund með lögreglustjóra vegna fimm ára tafa á kæru ÁTVR – „Hvað í ósköpunum geti skýrt þessa ótrúlegu töf“

Vilja fund með lögreglustjóra vegna fimm ára tafa á kæru ÁTVR – „Hvað í ósköpunum geti skýrt þessa ótrúlegu töf“
Fréttir
Í gær

Fleiri fylgjandi vegtollum en á móti í fyrsta sinn – Framsóknarmenn hrifnastir

Fleiri fylgjandi vegtollum en á móti í fyrsta sinn – Framsóknarmenn hrifnastir