Barcelona er hætt að eltast við Viktor Gyökeres, framherja Sporting, samkvæmt blaðinu Mundo Deportivo í Katalóníu.
Sænski framherjinn hefur verið orðaður við fjölda stórliða eftir ótrúlega frammistöðu sína í Portúgal, þar sem hann hefur raðað inn mörkum.
Gyökeres hefur einnig verið orðaður við Manchester United til að mynda en samkvæmt nýjustu fréttum eru Börsungar farnir að horfa annað í leit að framherja.
Barcelona er í leit að arftaka Robert Lewandowski og sér þar Alexander Isak, sem hefur slegið í gegn hjá Newcastle, sem mjög vænlegan kost.
Isak hefur einnig verið orðaður við Arsenal, sem og fleiri félög, en ljóst er að Newcastle selur hann ekki ódýrt.
Samkvæmt Mundo Deportivo er Isak ekki eini maðurinn sem Barcelona vill í sóknarlínu sína í sumar því Luis Diaz hjá Liverpool er einnig á blaði.