Markus Babbel, fyrrum leikmaður Liverpool, er með góð ráð fyrir enska stórliðið Manchester United.
Babbel telur að United eigi að reyna við sóknarmanninn öfluga Harry Kane í sumar og einfaldlega kaupa hann frá Bayern Munchen fyrir 67 milljónir punda – það er kaupákvæðið í samningi leikmannsins.
Gengi United hefur svo sannarlega verið slæmt undanfarin ár og þrátt fyrir að hafa eytt miklum peningum virðast hlutirnir ekki vera að batna.
,,Ef ég væri Manchester United þá væri ég að gera allt sem ég gæti til að fá Harry Kane því hann er fáanlegur fyrir 67 milljónir,“ sagði Babbel.
,,Það sem er í gangi hjá Manchester United er ekki ásættanlegt. Þetta er eitt stærsta félag heims og í hversu mörg ár hafa þeir verið í vandræðum?“
,,Þetta á ekki að vera hægt. Þeir eyða líka svo rosalega miklum peningum. Ég heyri það sama á hverju ári, að hlutirnir séu að versna þó þeir séu að eyða þessum peningum.“